Næstu tvær vikurnar verður opið hús hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í Mjódd til að þiggja fjórða skammtinn af bóluefni gegn Covid-19. Þetta opna hús er einkum ætlað 80 ára og eldri og fólki með undirliggjandi sjúkdóma.

Í tilkynningu frá heilsugæslunni kemur fram að undanfarið hafi verið mikil aðsókn í fjórða skammtinn og því hafi verið ákveðið að hafa opið hús 21. júní til 1. júlí á milli kl. 13:00 og 15:00, í Mjóddinni.

Bólusetningarnar verða í Álfabakka 14a á 2. hæð. Bólusett er í almannarými og það er grímuskylda. Notað er Pfizer bóluefnið en einnig verður hægt að fá Janssen ef óskað er.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að áfram verði í boði að fá bólusetningu á heilsugæslunni en að það sé aðeins á ákveðnum dögum og tekið fram að það þurfi að panta tíma.

Til að geta fengið fjórða skammt bóluefnisins þurfa að lágmarki fjórir mánuðir að hafa liðið frá þriðja skammti bóluefnisins.