Opið er að gosstöðvum í Meradölum í dag. Það var ákveðið á fundi almannavarna og lögreglunnar í morgun. Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum er þeim bent á sem ætla sér að ganga að gosstöðvunum að búa sig vel áður en lagt er af stað.

Lokað hefur verið að gosstöðvunum síðustu daga vegna veðurs og lélegrar færðar en björgunarsveitin Þorbjörn hefur á meðan unnið að lagfæringum og merkingum á gönguleið A sem er sú leið sem flestir fara að gosstöðvunum.

Tólf ára aldurstakmark

Greint var frá því í gær að börnum, tólf ára og yngri, væri ekki heimilt að ganga að gosinu. Þingmaður lýsti yfir efasemdum með það í gær en lögreglustjóri hefur svarað því og sagði stundum þurfa að taka óvinsælar ákvarðanir.