Hvorki Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri né stjórn Íslensku óperunnar voru boðuð í dómssal í aðalmeðferð í máli Þóru Einarsdóttur gegn Íslensku óperunni síðastliðinn föstudag og voru þess vegna ekki viðstödd. Þóra hefur stefnt Íslensku óperunni fyrir samningsbrot.

Lögmaður Þóru, Brynjólfur Eyvindsson lýsti yfir vonbrigðum yfir því að óperustjóri hefði ekki séð sér fært að mæta fyrir réttinn í samtali við Fréttablaðið um helgina, þar sem hún hefði hugsanlega getað varpað einhverju ljósi á málið.

Viðar Lúðvíksson, lögmaður Íslensku óperunnar, segir að engu hafi breytt þótt að Steinunn hafi ekki verið viðstödd aðalmeðferð málsins síðastliðinn föstudag. „Í fyrsta lagi voru hvorki hún né nokkur forsvarsmaður Íslensku óperunnar boðuð til skýrslugjafar fyrir dómi, enda engin ástæða til. Þetta mál snýst einkum um skilning og skýringu á samningi aðila.“

Hann segir jafnframt að umbjóðandi sinn sé ósáttur vegna rangfærslu í fréttum um að Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri, hafi verið boðuð til að mæta fyrir dóminn, en hafi ekki mætt.

Líkt og Fréttablaðið hefur áður greint frá stefnir Þóra Íslensku óperunni fyrir meint brot á samningum við æfingar og uppfærslu óperunnar Brúðkaup Fígarós í fyrra. Allir helstu söngvarar, sem léku aðalhlutverkin í sýningunni, hafa einnig leitað til stéttarfélaga vegna meintra samningsbrota af hálfu Íslensku óperunnar.

Málið snýst um að Íslenska óperan gerði verksamninga við söngvara í sýningunni Brúðkaup Fígarós í fyrra þar sem vísað er til kjarasamnings FÍH um önnur atriði en verksamningurinn tók til. Í verksamningnum var hins vegar tekið fram að greiðslur samkvæmt honum væru tæmandi og endanlegar.