„Mér þykir ekki ástæða að fulltrúi frá Íslensku óperunni sem getur ekki unnið með söngvurum sé inni í því að forma framtíðaróperu,“ segir Ólöf Kolbrún Harðardóttir, stofnmeðlimur Íslensku óperunnar sem er meðal ótalmargra sem eru ósáttir með gang mála innan Óperunnar undir stjórn Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur og lýsa yfir áhyggjum með framtíð þjóðaróperu.

Sýknudómur í máli Þóru Einarsdóttur gegn Íslensku óperunni var dropinn sem fyllti mælinn en hún stefndi óperunni vegna samningsbrota við uppfærslu á Brúðkaupi Fígarós sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu. Klassískir söngvarar á Íslandi lýstu yfir vantrausti á stjórn og óperustjóra í gær og segja vandamál hafa verið viðvarandi lengi á óperuvettvangi á Íslandi. Söngvarar hafa ekki þorað að stíga fram hingað til af ótta við að komast á svartan lista.

Ólöf Kolbrún rifjar upp sögu Íslensku óperunnar.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Byrjaði sem grasrótarfélag söngvara

„Fyrst og fremst finnst mér þetta sorglegt, að fjörutíu árum eftir að við fórum af stað, skuli þetta vera komið í þetta,“ segir Ólöf Kolbrún Harðardóttir, einn frumkvöðlanna sem stóðu að stofnun Íslensku Óperunnar 1980 með Garðar Cortes í broddi fylkingar. Ólöf var um tíma framkvæmdastjóri Óperunnar og tók við Garðari sem óperustjóri árið 1992.

Hún segir fyrstu ár ÍÓ hafa gengið rosalega vel. Þetta hafi verið grasrótarfélag söngvara sem vildu sýna fram á að óperugreinin ætti sér stað á trénu ásamt hinum listgreinunum.

„Þetta átti aldrei að verða einkafyrirtæki, þetta var sjálfseignarstofnun, við vildum koma óperunni á framfæri og svo átti ríkið að taka við þessu,“ segir Ólöf Kolbrún.

Að hennar mati voru mistök að færa heimili Íslensku Óperunnar úr Gamla Bíói, sem var notað undir starfsemi óperunnar í 30 ár, yfir í Hörpu.

„Það var svo mikils virði fyrir söngvarahópinn þegar við áttum húsið því þá áttum við heimili. Nú hefur óperan enga aðstöðu og er að nota allt of mikið fé í húsaleigu og þar að auki þarf að leigja svið þegar þarf að nota það.“

Gamla bíó var heimili Íslensku óperunnar í 30 ár.

„Þetta á ekki að líðast í dag og það er kominn tími til að verði breyting á þessu.“

Greinileg stéttaskipting

Ólöf Kolbrún segir nokkuð ljóst að það sé enginn starfsvettvangur fyrir það sem heitir íslensk ópera í þessu ástandi og að það sé sorglegt að þetta skuli vera komið í þennan farveg. Hún veltir upp spurningum um hlutverk Íslensku óperunnar í stofnun þjóðaróperu.

„Söngvarar munu ekki sætta sig við þessa framkomu við sig og þessa launasamninga. Ef verið er að stofna þjóðaróperu þá er alveg spurning hvort Íslenska óperan eigi yfir höfuð að tilnefna einhvern fulltrúa í það ráð. Svo getur líka verið að Íslenska óperan þurfi bara hreinlega að hreinsa til hjá sér alla afstöðu gagnvart söngvurum áður en hún getur haldið áfram að vinna í eða taka þátt í því að stofna framtíðaróperu. Það virðist ekki möguleiki á samkomulagi milli stjórnar og óperustjóra og söngvarahópsins og við erum ekki bara að tala um síðasta söngvararhóp heldur virðist þetta ná einhver ár aftur og aðallega með síðasta óperustjóra. Ég hef ekki verið að kanna það sérstaklega en það er á hreinu að það er ekki hægt að halda áfram nema nema það sé sterkur hópur sem stendur saman að því.“

Þóra Einarsdóttir söngkona í héraðsdómi ásamt lögmanni sínum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Segir hún stóran hóp hafa komið saman á fjarfundi Klassís, fagfélags klassískra söngvara, síðustu helgi. Hún segir ekkert annað í boði en að styðja söngvara.

„Okkur er ekkert sama um það hvernig hefur verið farið með þetta fyrirtæki. Við lögðum rosalega mikið af mörkum og það var alltaf mjög góð og öflug samstaða og allir lögðu á sig að láta hlutina ganga. En eins og þetta hefur verið rekið upp á síðkastið þá er þessu greinilega stéttaskipt. Það er ekki borin virðing fyrir skoðunum fagfólks og alls ekki fyrir samningum þeirra. Svona getur þetta ekki gengið og mér þykir ekki ástæða að fulltrúi frá Íslensku óperunni sem getur ekki unnið með söngvurum sé inni í því að forma framtíðaróperu, enda leyfi ég mér að efast um að reynslan sé nógu mikil og góð. Þarna eiga að vera söngvarar með og reynsluboltar, sem vita hvernig hlutirnir eru,“ segir Ólöf Kolbrún og bætir við:

„En það er heldur ekkert hægt að gera áfram ef Óperan er ekki tilbúin að semja við söngvarana á réttum nótum, ef hún vill fara í það að yfirbjóða suma söngvara og undirbjóða aðra. Það tíðkast nú ekki á þessari öld í samningamálum yfirleitt. Þetta á ekki að líðast í dag og það er kominn tími til að verði breyting á þessu.“

Kristinn Sigmundsson bassi.
Fréttablaðið/Anton Brink

Heppinn að hafa átt farsælan feril í útlöndum

Kristinn Sigmundsson bassi er sannarlega þungavigtarmaður í óperusenunni en hann hefur komið fram í flestum stærstu óperu- og tónlistarhúsum heims, þar á meðal Metropolitan-óperunni í New York, Staatsoper í Vínarborg, La Scala í Mílanó, Covent Garden í London, Opéra National í París, Deutsche Oper og Staatsoper í Berlín, Royal Albert Hall í London og Concertgebouw í Amsterdam.

Hann segir söngvara ávallt hafa upplifað áhyggjur með starfsumhverfi sitt á Íslandi — söngvarar hafa alltaf verið undirborgaðir, sérstaklega í óperum. Kristinn segist heppinn að hafa átt farsælan feril í útlöndum þannig að hann gat haft ofan í sig á þeim launum.

„Á móti hefur komið þegar ég hef sungið hjá Íslensku óperunni hef ég litið á það sem bara ákveðinn styrk við Óperuna frá minni hálfu, að taka brot af því sem ég tek annars staðar,“ segir Kristinn og nefnir dæmi um þegar hann var að syngja hér á landi með stórt hlutverk í Íslensku óperunni.

„Þá var ég mikið að syngja um helgar, á árshátíðum og svoleiðis samkomum, þá fékk ég fjórum sinnum meira greitt fyrir það en það sem ég fékk fyrir stórt aðalhlutverk í Óperunni. Ég veit að þetta er þungur rekstur og kostnaðarsamt en söngvararnir hafa alltaf mætt afgangi, því miður. Erlendir kollegar mínir eru steinhissa þegar þeir heyra um launin á Íslandi.“

Enginn í þessu til að græða pening

Í upphafi hafi söngvarar vilja leggja lóð sín á vogarskálarnar til að styrkja rekstur óperu á Íslandi. „En það hefur alltaf verið skorið við nögl ef litið er á vinnuframlag. Tímakaupið er mjög lágt miðað við allan þann undirbúning sem einn söngvari þarf að leggja á sig fyrir svona sýningar, bæði með heimavinnu og annað. Það er enginn í þessu til að græða pening.“

Kristinn segir fólk ekki ánægt með sín kjör og það sé engin launung að það hafi verið samstarfsörðugleikar.

„Ég held að það sé hugur í fólki, sérstaklega í ljósi dómsmálsins, nú er búið að sjá hvernig kjörin eru, að það sé ekki um annað að ræða fyrir söngvara heldur en að ákveða hvernig samninga þeir vilja gera. Fólk á ekki að semja af sér endalaust.“

Mikilvægt sé að líta á stóru myndina en hætta er á að missa góða söngvara til útlanda.

„Það fólk sem er mikilvægast í óperu eru söngvararnir og þeir þurfa að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Það er sárt að sjá eftir góðum söngvurum sem fara til útlanda og við fáum aldrei að heyra í þeim, eða sjaldan.“

Kristinn Sigmundsson sem Don Bassilio í óperu Rossini The Barber of Seville í Los Angeles árið 2015.
Fréttablaðið/Getty images

Söngvarar þurfa að vera í fyrirrúmi

Aðspurður um nefnd um stofnun þjóðaróperu segist Kristinn vera áhyggjufullur.

„Söngvarar þurfa að vera í fyrirrúmi í þjóðaróperu. Mér líst ekki alveg á hvernig nefnd um þjóðaróperu er samsett, það skýtur skökku við hversu fáir söngvarar eða fagfólk í óperu eiga þar sæti. Vonandi tekst þetta vel til, ég vil ekki dæma þetta fyrir fram en ég hef áhyggjur á því hvernig þetta lítur út.“

Andri Björn Róbertsson söngvari.
Fréttablaðið/Anton Brink

Laun farið lækkandi og samningar versnað

„Við vorum þarna rúmlega fjörutíu sem er eiginlega bara sjaldheyrt á svona félagsfundum meðal tónlistarmanna á Íslandi. Það er greinilega mikil samstaða og áhugi meðal klassískra söngvara að koma þessum málum í réttan farveg,“ segir Andri Björn Róbertsson söngvari um félagsfund Klassís síðustu helgi þar sem lýst var yfir vantrausti á stjórn Íslensku óperunnar.

Andri Björn hefur sungið víða um Evrópu og hafði varið öllum sínum ferli erlendis áður en hann söng í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Brúðkaupi Fígarós í Þjóðleikhúsinu. Söngvarar kvörtuðu undan samningsbrotum við æfingaferli á óperu Mozart og tók Þóra Einarsdóttir, sem fór með hlutverk Súsönnu, slaginn fyrir hópinn sem endaði með sýknu. Andri segir samninginn hafa verið fyrir neðan allar hellur.

„Við erum ekki bara að tala um launin. Þrátt fyrir Óperan hafi verið sýknuð staðfestir dómurinn að samningarnir eru illa samsettir. Óperustjóri hefur bara tekið út auka greiðslur vegna sjónvarpssýninga og streymis og ákvæði í samningnum um t.d. yfirvinnu og vinnuvernd eru ekki gild samkvæmt nýföllnum dómi. Þetta var allt gert án samtals við FÍH eða önnur félög sem sjá um þessi samningamál. Auk þess hefur hún smátt og smátt minnkað aðkomu söngvara. Það er greinilega bara unnið gegn hagsmunum söngvara, laun virðast hafa farið lækkandi og samningar versnað,“ segir Andri Björn.

Eyrún Unnarsdóttir, sem fór með hlutverk Greifynjunnar í Brúðkaupi Fígarós og Andri Björn Róbertsson, sem lék titilhlutverkið Fígaró.
Fréttablaðið/Anton Brink

Í andstöðu við upprunann

„Síðan er hið siðferðilega, það er bara framkoma óperustjóra við söngvara. Það er algjört áhugaleysi um umkvörtunarefni okkar sem sást best í því þegar Þóra Einarsdóttir fór með málið fyrir dóm og enginn mætti frá óperunni, hvorki stjórn né óperustjóri, til þess að vera viðstödd málið eða dómsúrskurð. Þau hafa sýnt lítinn áhuga á okkar málefnum og það er sorglegt þegar íslensk óperan, sem stofnuð er sem grasrót íslenskra söngvara, sé nú í andstöðu við það sem þau börðust fyrir með stofnun óperunnar.“

Andri segir Óperuna, í krafti einokunarstöðu sinnar, halda launum niðri og loka á söngvara sem annað hvort kvarta eða hafa athugasemdir um starfsemina eða reksturinn. „Þannig að fólk hefur verið hrætt við að gagnrýna stofnunina af ótta við að skemma fyrir eina tækifærinu til að flytja óperur á Íslandi. Þetta er mjög alvarlegt mál,“ segir Andri.

„Ef óperustjóri hefur einhvern áhuga á samningamálum söngvara þá gæti hún bara byrjað á því að fara eftir samningi óperunnar við FÍH, sem er í gildi.“

Andri Björn sem Lord Krishna í óperunni Satygraha hjá English National Opera í London Coliseum árið 2018.
Fréttablaðið/Getty images

„Þetta eru allir“

Hingað til hefur verið skortur á samstöðu og samtali meðal söngvara en eftir fund Klassís síðustu helgi er ótvíræð samstaða meðal allra helstu söngvara landsins í klassíska geiranum.

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri sagði í samtali við RÚV í gær að vantraustsyfirlýsingin kæmi henni á óvart. Sagðist hún eiga í mjög góðum samskiptum við fjölmarga söngvara. Andri segist ekki vita hvaða söngvara hún eigi við þar sem „allir“ hafi verið á fundi Klassís að tjá sig um óánægju gagnvart Óperunni.

„Þetta er ekki bara einhverjar nokkrar óánægjuraddir sem hafa verið að kvarta undanfarin. Þetta eru allir. Það eru allir komnir með nóg. Hún segir málið snúast um lítinn hóp sem hafi aðrar skoðanir á hvernig Íslensku óperunni hefur stjórnað, það er bara ekki rétt. Þetta eru samtök allra klassísk söngvara á Íslandi,“ segir Andri.

Óperustjóri hefur lýst því yfir að hún vilji setjast niður með fulltrúum söngvara til að tala um hvernig samningargerðum í framtíðinni verði háttað. Andri segir þetta algjörlega út úr kú.

„Í ljósi vantrauststillögu er engin ástæða til að setjast niður með þeim. Traustið er farið. Ef óperustjóri hefur einhvern áhuga á samningamálum söngvara þá gæti hún bara byrjað á því að fara eftir samningi óperunnar við FÍH, sem er í gildi.

Eyrún Unnarsdóttir söngkona.

Ákveðið traust farið

Eyrún Unnarsdóttir, sem sló í gegn í hlutverki Greifynjunnar í Brúðkaupi Fígarós, segist hafa upplifað og heyrt margt sem rýrir traust hennar til Íslensku óperunnar.

„Það er margt sem ég hef upplifað persónulega sem hefur ekkert endilega að gera með þessa samninga að ég ber ekki mikið traust til þeirra. Maður hefur líka heyrt hluti út undan sér sem ýta ekki undir traust um að það sé borin virðing fyrir manni sem listamanni og að maður geti leitað réttar síns án þess að missa af tækifærum hjá óperum,“ segir Eyrún en hún hefur búið og starfað í Vínarborg með hléum í tíu ár. Líkt og Andri þreytti hún frumraun sína á íslensku sviði þegar hún söng í Brúðkaupi Fígarós í Þjóðleikhúsinu.

Þó að upplifunin hafi verið gefandi og eftirminnileg segir hún ákveðið traust farið. Hún segir sýknudóminn í máli Þóru gegn Íslensku óperunni vekja margar spurningar.

„Með þessum dómi virðist vera að við höfum ekkert í höndunum með að krefja þau um að fara að vinnuvernd. Það traust um að þau virði okkar vinnutíma, okkar rödd, er ekki lengur til staða. Ég sé ekki hvernig á að vinna það traust til baka, þau geta auðvitað gert einhverja samninga, en hvernig eigum við að treysta því að þeim verði fylgt í framhaldinu ef það var ekki gert núna, verandi með þessa klausu í samningunum okkar.

Eyrún á plaggati fyrir Brúðkaup Fígarós.
Mynd: Íslenska óperan

Geta ekki átt heima á Íslandi

Hún segir langflest tækifæri erlendis og stöðuna sorglega á einokunarmarkaði á Íslandi.

„Það er náttúrulega algjör fákeppni og fátt fyrir okkur að gera nema þegar við erum það „heppin“ að fá hlutverk hjá ÍÓ.“

Þess vegna hafa söngvarar alla tíð leitað út. „Vegna þess að óperusöngvarar geta ekki átt heima á Íslandi og þeir sem hafa ekki tök á því að flytja erlendis neyðast til að fara í önnur störf því það eru ekki næg hlutverk fyrir fólk hér heima. Það er bara þannig og ekki hægt að skafa ofan af því. Flestir hafa látið margt yfir sig ganga út af þessari þrá og gleði að fá að syngja fyrir sitt fólk og sýna hvað maður hefur verið brasa. En nú virðist sú velvild og þrautseigja vera á þrotum.“

Stjórn Íslensku óperunnar.
Fréttablaðið/Samsett mynd

Pétur J. Eiríksson, formaður stjórnar Íslensku óperunnar segir vantraustsyfirlýsingu Klassís ekki málefnalega og algjörlega órökstudda.

„Að sjálfsögðu ber stjórn Íslensku óperunnar hag söngvara fyrir brjósti. Við gætum ekki rekið ÍÓ ef við gerðum það ekki,“ segir Pétur í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins. Hann segir hlutverk stjórnar að hafa eftirlit með rekstri stofnunarinnar og sjá til þess að ávalt sé beitt bestu stjórnunarháttum og að hvergi sé slakað á listrænum metnaði. Auk þess að ráða óperustjóra sem sér um daglegan rekstur og listræna stjórnun.

Söngvarar hafa sagt stjórnina sýnt áhugaleysi að heyra sjónarmið, umkvörtunarefni og tillögur frá söngvurum. Pétur segist algjörlega ósammála.

„Við höfum reynt að opna aðkomu fleiri aðila að Óperunni meðal annars með stofnun fulltrúaráðs með breiðri aðild. Undanfarin þrjú ár hefur farið fram stefnumótun með opnum fundum með áherslu á sem breiðasta þátttöku og öflun nýrra og sem flestra sjónarmiða. Það hefur skilað góðum árangri og leitt til opnari stjórnunarhátta, þvert á það sem fullyrt hefur verið, afburða dóma í íslenskum og erlendum fjölmiðlum og miðasölu langt umfram áætlanir.“

Hann segir stjórnina að sjálfsögðu tilbúna að hlusta á umkvörtunarefni, tillögur og sjónarmið söngvara. „Okkar dyr hafa aldrei verið lokaðar.“