Sviðslistahópurinn Óður flytur um þessar mundir gamanóperuna Don Pasquale í Þjóðleikhúskjallaranum. Þórhallur Auður Helgason óperusöngvari fer með hlutverk Ernesto í sýningunni og segir hann markmið hópsins að setja upp óperusýningar fyrir almenna Íslendinga, einkum þá sem halda að þeir hafi ekki gaman af óperum. Óperan sé flutt á íslensku og í fyrirrúmi sé leikgleði, nánd við áhorfendur og umfram allt að taka þetta ekki of hátíðlega.
„Óperuformið hefur í seinni tíð orðið dálítið heilagt fyrir mörgum. Það má litlu breyta og hefðin ræður dálítið miklu en við lítum svo á að ópera eigi fyrst og fremst að vera skemmtun og leyfum okkur ýmislegt til að koma því til skila,“ segir Þórhallur.
Fyrir nokkrum árum fór Þórhallur ásamt vini sínum, óperusöngvaranum Ragnari Pétri Jóhannssyni, á óperuna Ástardrykkinn í Vínarborg. Þórhallur segir að gamanóperan hafi verið afar vel upp sett í þetta skiptið. „Hún var alveg bráðfyndin. Við vorum þarna í rosalega góðu skapi og hlógum okkur máttlausa en fólkið í kringum okkur var alltaf að sussa á okkur,“ segir Þórhallur. „Áhorfendum fannst þetta svo fínt að það mátti ekki hlæja að gamanóperunni,“ bætir hann við.
Við vorum þarna í rosalega góðu skapi og hlógum okkur máttlausa en fólkið í kringum okkur var alltaf að sussa á okkur.
„Við bitum þetta svo rosalega í okkur, fórum heim og töluðum um það hvernig væri komið fyrir þessu listformi ef maður mætti ekki lengur hlæja á gamanóperu. Okkur langaði satt að segja mest að setja upp okkar eigin sýningu þar sem fólk mætti hlæja eins og það vildi,“ segir Þórhallur.
Þeir Ragnar, ásamt óperusöngkonunni Sólveigu Sigurðardóttur, ákváðu því að setja upp Ástardrykkinn á Íslandi og úr varð Óður. Upphaflega stóð til að sýningin færi fram á bar en svo bauðst hópnum að sýna í Þjóðleikhúskjallaranum. Ástardrykkurinn var í sýningu í rúmt ár og sýnir hópurinn nú næstu sýningu sína þar, Don Pasquale, sem hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda.
„Það sem okkur hefur í rauninni tekist, og var okkar markmið frá upphafi, er, auk þess að fá fullt af fólki sem þekkir þennan óperuheim á sýningarnar, að ná líka til fólks sem hélt aldrei nokkurn tímann að það gæti haft gaman af óperum,“ segir Þórhallur.

Skemmtilegra en fólki grunar
„Það er fullt af fólki sem hefur mætt á sýningarnar og játað fyrir okkur að hafa ekki trúað á þetta, það hafi gengið þarna inn af einhverri skyldurækni og búist við því að þetta yrði ofboðslega leiðinlegt. Svo hlær það allan tímann og spyr spennt eftir sýningu hvað sé næst á dagskrá hjá okkur,“ segir hann og hlær.
Ástæðuna segir hann þá að margir hafi svo fastmótaðar hugmyndir um óperu og sýningin gangi gegn mörgum þeirra.
„Við hrærumst vissulega öll í þessum óperuheimi núna en það er ekki eins og við gerum ekkert annað. Við erum bara að setja upp sýningar sem við myndum vilja sjá. Ég held að hugmyndin um óperusöngvara sé dálítið sú að við séum öll föst í fornöld en í matarpásum erum við bara að tala um nýjasta Last of Us-þáttinn og hvað Rings of Power var hræðileg sería,“ segir Þórhallur. „Þó að við séum búin að breyta ákveðnum hlutum þá erum við ekki búin að skrumskæla verkið, þetta er enn þá ópera, en við leyfum okkur að gera nýja hluti og breyta því sem okkur þykir einfaldlega gera sýninguna skemmtilegri,“ segir hann.
„Ég get sagt það fyrir mig að framan af fannst mér ópera frekar leiðinleg og það tók mig langan tíma að fatta þetta form. Við erum þeirrar skoðunar að óperan þurfi ekki alltaf þetta punt, hún á fyrst og fremst að segja sögu og tónlistin brýtur niður svo marga múra. Þegar fólk gleymir því síðan að við séum að syngja, þá lifnar sýningin við,“ segir Þórhallur.