Opel umboðið mun vera að færast yfir til Brimborgar, en Bílabúð Benna hefur haft Opel umboðið síðan 2014 þegar það fór frá BL. Á þeim tíma missti Bílabúð Benna Chevrolet umboðið vegna ákvörðunar GM um að hætta sölu á merkinu í Evrópu.

Opel merkið er nú undir Stellantis samsteypunni eftir samruna Fiat Chrysler Automo­biles og PSA í Frakklandi, og byggir hönnun nýrra Opel bíla að miklu leyti á undirvögnum og vélbúnaði PSA. Það þarf því ekki að koma á óvart að Brimborg sé að taka við merkinu, enda eru bæði Peugeot og Citroen merkin þar innandyra.

Að sögn Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar, er þetta tilkomið vegna þess að Stellantis vill flytja ábyrgð á innflutningi, sölu og þjónustu á Opel bílamerkinu til Brimborgar sem er með önnur merki þeirra fyrir. Egill vildi á þessu stigi ekki fara út í nánari útfærslu á hvernig og hvenær tilfærslan fer fram.

Næsti bíll Opel merkisins á markað er hinn mikilvægi Opel Astra sem kemur nú í sinni áttundu kynslóð og verður meðal annars boðinn sem tengiltvinnbíll.

Hann var frumsýndur í fimm dyra útgáfu fyrir stuttu en einnig hefur verið uppi orðrómur að blendingsútgáfu sé að vænta undir nafninu Opel Astra Cross. Bílarnir verða með þriggja strokka 1,2 lítra bensínvélum og 1,5 lítra dísilvélum ásamt tveimur tengil­tvinnútgáfum sem eru 180-225 hestöfl.

Loks er von á rafdrifnum Astra-e árið 2023.