Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir allt aðra upplifun að hlusta á ávarp Vólódómír Selenskí, forseta Úkraínu á Alþingi en hjá Alþjóðastofnunum.

„Það er auðvitað önnur upplifun að hlusta á hann hér í okkar þingsal á Alþingi Íslendinga þar sem hann setur þetta allt í íslenskt samhengi og rifjar upp samskipti þessara þjóða. Það er auðvitað aðeins öðruvísi en að hlusta á hann hjá Alþjóðastofnunum sem ég hef gert áður,“ segir Katrín.

Katrín segist hafa skynjað það á ávarpi Selenskí að Úkraínumenn taki eftir því sem Íslendingar hafi verið að gera til að aðstoða þjóðina í stríðinu við Rússa og að þeir hvetji íslensku þjóðina til að halda þeim aðgerðum áfram.

Að sögn Katrínar eiga Íslendingar og úkraínumenn sameiginlega sögu sem skiptir máli í stóra samhenginu. „Við þekkjum það líka hversu miklu máli það skiptir okkur að vera sjálfstætt og fullvalda ríki.“

Katrín segir Selenskí hafa ítrekað afstöðu sína varðandi aðgerðir sem þjóðir hafa beitt Rússa í kjölfar innrásarinnar og að þær skipti máli.

Aðspurð hvort henni þætti Selenskí hafa gert auknar kröfur um hertari aðgerðir gagnvart Rússum í ávarpi sínu segir Katrín hann hafa rætt um rússneska olíu og gas, „og við höfum mjög skýra afstöðu til þess.“