Önnur aur­skriða féll á hættu­svæði í Gjer­drum í Noregi rétt fyrir há­degi í dag. Enginn slasaðist en í mynd­skeiði frá norska miðlinum NRK má sjá við­bragðs­aðila flýta sér af vett­vangi. Heyra má við­vörunar­bjöllu hringja í mynd­skeiðinu.

Í frétt NRK segir að skriðan hafi fallið ekki fjarri þeim stað sem við­bragðs­aðilar voru við störf. Að sögn Roy Al­kvist, sem starfar á vett­vangi, var við­burðurinn ekki eins „dramatískur“ og halda mætti fyrir þau sem voru á staðnum. Það tók að­eins um eina mínútu að koma öllum út að sögn slökkvi­liðs­stjóra eftir að við­vörunar­bjallan fór í gang.

Skriðan var um 30 metra breið, tveggja metra djúp og tíu metra há. Verið er að rann­saka svæðið og bíður lög­regla mats frá jarð­fræðingum sem vinna á svæðinu.
Leit hefur nú staðið í um sjö daga í Ask og er þriggja enn saknað. Það er mikill snjór og frost en lög­regla er hörð á því að þau vonist enn til þess að finna fólk á lífi. Sjö hafa fundist látin eftir að skriðan féll.

Í frétt NRK segir að sam­kvæmt sér­fræðingum séu eins­konar loft­göt víða í rústunum og því ekki ó­lík­legt að fólk gæti fundist á lífi. Læknir við Halvard Sta­ve í Noregi sagði þó að það væri ekki nóg til að halda fólki á lífi svo lengi heldur þurfi líka að vera ein­hvers konar ein­angrun til að halda hita, fólk sé ekki slasað og hafa að­gengi að vatni.
Sér­þjálfaðir hundar að­stoða við leitina að þeim þremur sem enn er saknað. Við­bragðs­aðilar eru sagðir hafa fundir ýmis­legt á svæðinu með þeirra að­stoð.

Frétt NRK er að­gengi­leg hér. Þar er hægt að sjá mynd­skeið af því þegar við­bragðs­aðilar hraða sér af vett­vangi.