Aur­skriða féll á Seyðis­firði nú rétt í þessu. Skriðan hreif með sér hús og er um að ræða aðra skriðuna sem það gerir undan­farna daga.

Ómar Bogason, íbúi á Seyðisfirði, segir í samtali við Fréttablaðið að allir séu í losti. „Þetta eru bara náttúruhamfarir, við vitum ekki alveg stöðuna en það er alla vega eitt hús sem er alveg farið fram af,“ segir Ómar en um er að ræða annað húsið sem skriðan hefur tekið með sér.

„Þetta er hrikalega stór skriða og þetta er bara hrikalegt. Fólkið hér það bara faðmast og grætur,“ segir hann enn fremur en hann segist ekki vita til þess að einhver hafi lent í skriðunni.

Sjálfur þurfti hann að flýja svæðið þegar skriðan féll. „Þetta er bara skelfilegt. Það er bara búið að drynja í firðinum.“ Rafmagnslaust er nú í hluta bæjarins. Lög­reglan hefur ekki fengið upp­lýsingar um slys á fólki enn sem komið er.

Hafa ákveðið að hækka viðbúnaðarstig

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að hækka almannavarnastig á Seyðisfirði úr hættustigi í neyðarstig. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook síðu almannavarna.

Allir íbúar og aðrir á Seyðisfirði eru beðnir um að mæta í félagsheimilið Herðubreið og gefa sig fram í fjöldahjálparstöð eða hringja í síma 1717. Stefnt er að því að Seyðisfjörður verði rýmdur.

Allar björgunarsveitir á Austurlandi hafa verið boðaðar og lögreglumenn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sérsveit ríkislögreglustjóra og frá logreglunni á Norðurlandi eystra hafa einnig verið sendir á staðinn.

Fréttin hefur verið upp­færð.

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að hækka almannavarnastig á Seyðisfirði úr hættustigi í neyðarstig. Stór aurskriða...

Posted by Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra on Friday, 18 December 2020