Í dag má gera ráð fyrir vestlægri átt, hvassviðri og sums staðar stormi með slydduéljum og éljum. Það verður lengst af þurrt fyrir austan en í öðrum landshlutum dregur úr ofankomu þegar þegar líður á daginn.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.
Gular viðvaranir eru í gildi víða um land fram eftir degi þar sem gert er ráð fyrir éljagangi með lélegu skyggni. Á höfuðborgarsvæðinu er gul viðvörun í gildi til klukkan 14 í dag. Röskun hefur þegar orðið á flugi og ákvað Icelandair í gær að aflýsa öllum komum frá Norður-Ameríku nú í morgunsárið vegna veðurs. Þá var öllu morgunflugi til Evrópu aflýst, nema flugi til Tenerife og Alicante. Öllu innanlandsflugi var einnig aflýst.
Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að það dragi smám saman úr vindi í dag og í kvöld verði veður orðið skaplegt víðast hvar. Búast má við vægu frosti en við ströndina verður yfirleitt frostlaust.
„Á morgun er síðan von á enn einni lægðinni sem keyrir yfir landið. Í byrjun má gera ráð fyrir slyddu eða snjókomu sem síðan færist yfir í rigningu og ágætum hita. Um kvöldið verður vindur suðvestlægur með skúrum eða slydduéljum og kólnar aftur.“
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag:
Suðlæg átt 8-15 m/s og slydda eða snjókoma, en fer að rigna sunnan- og vestanlands með morgninum. Hlýnandi, hiti 1 til 7 stig eftir hádegi. Suðvestlægari síðdegis með skúrum um landið sunnan- og vestanvert.
Á sunnudag:
Norðlæg eða breytileg átt 5-13 og él, en úrkomulítið sunnanlands eftir hádegi. Frost 0 til 6 stig.
Á mánudag:
Fremur hæg breytileg átt og þurrt að kalla, en hvassari austanátt síðdegis með snjókomu á köflum sunnantil. Frost 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.
Á þriðjudag:
Norðaustlæg átt og él, en lengst af úrkomulítið suðvestantil. Frost 2 til 12 stig, mildast syðst.
Á miðvikudag:
Breytileg átt og él á víð og dreif. Heldur kólnandi.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir vaxandi suðlæga átt með vætu og hlýnandi veðri í bili.