Aur­skriða hrifsaði með sér stærðarinnar bút af þjóð­vegi í Alta í Norður-Noregi í nótt. Þrír dagar eru síðan aur­skriða á sama land­svæði tók með sér átta hús í sjóinn.

Svæðinu var lokað eftir aur­skriðuna sem fór af stað á mið­viku­daginn var vegna þess að talin var mikil hætta á fleiri slíkum skriðum á næstunni. Það reyndist rétt mat en í dag mátti sjá hvernig stór hluti þjóð­vegar á svæðinu var horfinn.

Mynd af svæðinu í dag.
NVE/Andres Bjorndal

Sam­kvæmt norska ríkis­út­varpinu NRK barst lög­reglu á svæðinu til­kynning um að skriðan hefði fallið rétt fyrir klukkan tvö í nótt. Tals­maður lög­reglunnar segir í sam­tali við norska miðilinn að gert sé ráð fyrir að skarðið eftir skriðuna sé um 30 til 40 metra djúpt og að um 50 metra langur kafli hafi runnið.

Þótt til­kynningin um skriðuna hafi borist í nótt er talið að skriðan gæti mögu­lega hafa fallið mun fyrr, lík­lega að­fara­nótt föstu­dags. Engin hús fóru nú með skriðunni ó­líkt þeirri sem féll á mið­viku­daginn. Þá var maður inni í einu húsanna, sem fór út í sjó með skriðunni, en honum var bjargað. Svæðið hefur síðan verið lokað og er enn talin mikil hætta á fleiri aur­skriðum.

Eitt hús eftir

„Maður getur ekki séð skriðuna neins staðar frá nema með dróna,“ segir Anders Bjor­dal, yfir­verk­fræðingur hjá Vatns- og orku­mála­stofnun Noregs, sem flaug dróna yfir svæðið í dag og sá að skriðan hafði fallið. „Að­fara­nótt föstu­dags hafði einn af vakt­mönnum Secu­ritas heyrt í skriðu og séð stórar og miklar öldur í sjónum.“

Secu­ritas hefur haft tvo vakt­menn við svæðið til að tryggja að enginn fari inn á það. Á morgun munu eftir­lits­aðilar og sér­fræðingar skoða svæðið betur til að sjá hver or­sök aur­skriðanna hafa verið. Einnig verður kannað hvort að hætta sé á að aur­skriðurnar fari að færast lengra upp í land og taka með sér meira svæði.

Eins og staðan er núna stendur eitt lítið hús við nýja brúnina við sjóinn. Talið er næsta víst að það eigi eftir að enda í sjónum á næstunni. Önnur hús í kringum svæðið eru talin í öruggri fjar­lægð.

Mynd af skemmdunum eftir aurskriðuna á miðvikudag.
NVE/Andres Bjorndal