Nang Mwe San, kona frá Mjanmar, var í herdómstóli dæmd í sex ára fangelsi fyrir að birta myndefni af sér á OnlyFans.

OnlyFans er samfélagsmiðill sem hýsir efni sem notendur á síðunni framleiða. Hægt er að gerast áskrifandi og greiða mánaðarlega upphæð fyrir efni frá notendum en langstærsti hópurinn framleiðir erótískt efni.

Nang Mwe San, sem er fyrirsæta og menntaður læknir, var ákærð fyrir að vanvirða menningu og reisn sinnar þjóðar að því er fram kemur á vef BBC. Hún birtir reglulega myndir af sér fáklæddri á samfélagsmiðlum og hefur sömuleiðis tekið þátt í mótmælum gegn herstjórn Mjanmar. Þetta er í fyrsta sinn sem einhver er fangelsaður fyrir að framleiða efni fyrir OnlyFans.

Her Mjanmar tók völdin í landinu 1. febrúar 2021 og hneppt Aung San Suu Kyi og aðra leið­toga ríkis­stjórnar þess í varð­hald. Herinn sagðist upphaflega ætla að halda völdum í eitt ár en nú einu og hálfu ári síðar er herinn enn við völd. Blóðug mótmæli hafa sett sinn svip á síðastliðið ár og hefur herinn fangelsað ótalmarga mótmælendur fyrir að hvetja til „haturs eða fyrir­litningar“.

Í júlí voru tveir lýðræðissinnaðir leiðtogar mótmæla teknir af lífi eftir lokuð réttarhöld þar sem þeir voru sakaðir um hryðjuverkastarfsemi.