Öngþveiti myndaðist á Keflavíkurflugvelli þegar hátt í ellefu flugum Icelandair og einu flugi Play var aflýst í gærkvöldi og núna í morgun vegna veðurs en gríðarleg snjókoma var á flugvellinum í gær.

Að sögn Ásgeirs Inga Valtýssonar myndaðist ákveðið öngþveiti á flugvellinum þegar flugunum var aflýst en hann var staddur á Keflavíkur flugvelli í gærkvöldi.

„Stórum hluta fluganna var aflýst vegna veðurs og myndaðist í raun ákveðið panikk ástand á flugvellinum. Fólk byrjaði að hlaupa öll í sitthvora áttina til að grípa í næstu upplýsingafulltrúa. En á endanum þurftu allir, þúsundir manns, að fara niður að sækja farangurinn sinn á sama tíma og koma sér af flugvellinum,“ sagði Ásgeir en löng bið myndaðist einnig eftir því að fá töskur til baka sem höfðu þegar verið innritaðar.

Ásgeir Ingi Valtýsson hugðist ferðast með Icelandair í gærkvöldi .
Mynd/aðsend

„Fólk bíður svo í nokkrar klukkustundir eftir farangrinum sínum og þegar maður loksins er kominn með hann mæta manni kílómetralangar raðir í leigubíla, rútur og bíla, sem lágu í hringi þvert yfir allan flugvöllinn. Það var mjög erfitt að fá bíl og sérstaklega erfitt að horfa upp á margar fjölskyldur með börn að reyna að redda sér hóteli og fari af vellinum,“ sagði Ásgeir en ekki voru nægilega margir leigubílar fyrir allan þann fjölda sem beið eftir að komast aftur af flugvellinum.

Mikill fjöldi fólks lenti í hremmingum vegna veðursins í gær. Langar raðir mynduðust eftir leigubílum til þess að komast af flugvellinum.
Mynd/aðsend

Hann segir þó að starfsfólk hafi staðið sig með prýði og að það hafi spilað stóra rullu að stutt sé til jóla.

„Í panikk ástandinu fóru allir að breyta fluginu og redda hóteli í nágrenninu og get ég ímyndað mér að það hafi verið erfitt að redda sér gistingu ef maður var ekki nógu fljótur strax. Jólaandinn er samt svo sannarlega til staðar þar sem fólk var greinilega tilbúið að hjálpa hvort öðru. Starfsfólk flugvallarins leiðbeindi manni, gaf farþegum að drekka og gerði allt sem það gat. Þetta er ekki óskastaða til að vera í rétt fyrir jól,“ sagði hann

Ástandið að lagast

Samkvæmt heimasíðu Keflavíkurflugvallar voru það aðallega flug með Icelandair sem var aflýst í nótt og nú í morgun en einnig aflýsti Play einu flugi sem fara átti til Alicante.

Þó virðist sem eðlileg umferð sé að komast á aftur þar sem bæði hafa flugvélar lent og stendur til að fara af stað með önnur flug á næstunni.

Samkvæmt Guðjóni Helgasyni upplýsingafulltrúa Isavia var unnið hörðum höndum að því að koma á eðlilegri umferð í gær,„snjórinn hafði vissulega áhrif í gær en okkar öfluga starfsfólk vann við að ryðja brautir í gær en þetta var vissulega talsverð ofankoma,“ sagði hann.