Mikið er um öndunarfærasýkingar af völdum mismunandi veira um þessar mundir og inflúensan og RSV eru fyrr á ferðinni en venjulega. Þetta kemur fram í nýrri samantekt embættis landlæknis á öndunarfærasýkingum.
Þar kemur fram að, eins og spáð hafði verið fyrir, stefni í að þennan fyrsta vetur án sóttvarnaaðgerða muni öndunarfærasýkingar leggjast þungt á landsmenn.
Þá kemur fram að enn séu töluverð veikindi vegna Covid-19 og að útlit sé fyrir að þeim muni fjölga. Eins og staðan er núna liggja 30 inni á Landspítala vegna Covid-19 og einn á spítalanum á Akureyri. Af þeim á Landspítala er einn á gjörgæslu og í öndunarvél. Fram kemur í samantektinni að í hverri viku séu að greinast um 210 einstaklingar og er hlutfall jákvæðra sýna á milli 30 til 40 prósent sem gefur til kynna töluverða útbreiðslu í samfélaginu.
Fleiri með inflúensu en í fyrra
Alls hafa síðustu vikur 112 einstaklingar greinst með inflúensu sem er fleiri en áður, samanborið við fyrri ár en á sama tíma í fyrra höfðu 80 greinst. Flestir eru á höfuðborgarsvæðinu en inflúensan hefur greinst í öllum landshlutum.
Þá hafa í október og það sem af er nóvember 79 einstaklingar greinst með RSV-vírus og kemur fram í samantekinni að í Evrópu sé sama staða uppi en að í sumum löndum megi sjá aukningu tilfella, sérstaklega hjá börnum yngri en fimm ára.