Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir umgangs­pestir líkt og inflúensu og RS-veiruna svokallaða skæðar í nágrannalöndunum, líkt og hér heima og vestanhafs í Bandaríkjunum.

Blaðið ræddi í vikunni við yfirlækni á Barnaspítala Hringsins sem sagði álagið mikið vegna pesta. Þá var greint frá því í gær að hið sama væri upp á teningnum í Bandaríkjunum en barnalæknar hafa hvatt Joe Biden Bandaríkjaforseta til að lýsa yfir neyðarástandi vegna útbreiðslu RS-veirunnar.

„Eins og spáð hefur verið stefnir í að þennan fyrsta vetur án sóttvarnaaðgerða vegna Covid-19 leggist árstíðabundnar öndunarfærasýkingar af fullum þunga á landsmenn,“ segir Guðrún í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um ástand hér á landi og í nágrannalöndum.

Guðrún segir Embætti landlæknis munu gefa út vikulegt yfirlit yfir stöðuna vegna pesta hér á landi. Þar kemur meðal annars fram að inflúensan sé farin af stað í Evrópu almennt, ástandið sé misjafnt eftir löndum. Þá geisar Covid-19 áfram en smitum og dauðsföllum hefur fækkað en innlagnir staðið í stað.

RS-veiran greinist í mörgum löndum og í sumum má sjá aukningu á tilfellum og innlögnum fyrr en venjulega, sérstaklega hjá börnum yngri en fimm ára. „Á Norðurlöndum hefur RS-veiran verið skæð í Danmörku og inflúensa er byrjuð að greinast. Norðmenn voru búnir að spá að þessar veirur myndu skella á með þunga þar einnig,“ segir Guðrún.