Það er ekki ofsögum sagt þegar maður veltir fyrir sér ónæmiskerfinu að það sé eitt það flóknasta í líkama okkar.

Við skiljum það ekki enn til hlítar, þrátt fyrir að við höfum nokkuð góða innsýn í virkni þess. Við finnum alla jafna ekki mikið fyrir því sem það er að gera flesta daga þrátt fyrir að það unni sér aldrei hvíldar svo fremi sem það er í lagi. Manneskjan samanstendur af frumum í grunninn sem mynda mismunandi líffæri og kerfi líkamans, þar með talið ónæmiskerfið.

Það má með mikilli einföldun líkja því við her eða varnarviðbúnað sem er ætlast til að þekki óvini okkar og útrými þeim áður en þeir fara að valda okkur einkennum eða skaða. Flesta daga ævi okkar er einmitt verið að vinna slíka vinnu og við verðum hreinlega ekki vör við eitt eða neitt.


Mikilvægi kerfisins


Örverur ýmiss konar eru allt um kring og það er stöðugt verið að hreinsa þær og afvopna. Það er auðvelt að skilja hversu mikilvægt ónæmiskerfið er okkur öllum þegar við horfum á þá sem hafa ekki slíkt og hversu viðkvæmir þeir eru.

Dæmi eru sjúklingar í krabbameinsmeðferð eða ónæmisbælandi, þeir sem hafa ónæmisgalla, eru sýktir af sjúkdómi eins og HIV og með langt genginn sjúkdóm sem þá kallast AIDS. Við höfum öll heyrt af því að slíkt fólk sé sett í einangrun til að verja sig frá umhverfinu. Það er í hnotskurn þegar kerfið er bilað með einhverjum hætti og varnarlítið eða varnarlaust.


Aðstoð við ónæmiskerfið


Ónæmiskerfið hefur þann einstaka eiginleika að þekkja sitt eigið og greina það frá öðru, það er í grunninn hluti varnarkerfisins. Líkami okkar ræðst á það óþekkta, örverur eða sníkjudýr, og leysir vanda okkar. Stundum fylgja þessu einkenni eins og hiti eða almenn veikindi sem venjulega ganga yfir, flestir veirusjúkdómarnir eru þannig.

Stundum þarf ónæmiskerfið aðstoð í formi lyfja eða annars konar meðferða líkt og við sýkingar af bakteríutoga eða öðrum örverum eins og sveppum. Ónæmiskerfið er líka að verki þegar líkaminn hafnar ígræddu líffæri þar sem hann þekkir það ekki sem sitt eigið og svona má áfram telja.

Sjálfsónæmissjúkdómar

Öllu flóknara verður þegar líkaminn ræðst gegn sjálfum sér og hættir að greina á milli með réttum hætti sem getur verið lífshættulegt og/eða krónískt ástand eins og margir sjúklingar þekkja sem eru með liðagigt eða aðra sjálfsónæmissjúkdóma. Það þarf þá að feta mjög þröngan stíg meðhöndlunar sem byggir á að minnka eða eyða einkennum án þess að lama í leiðinni mótstöðuafl líkamans til að berjast við daglega vágesti.

Frekari þróun læknavísinda og möguleika til meðferðar á sjúkdómum felst að miklu leyti í því að annars vegar nýta ónæmiskerfið til meðferða, veikla það markvisst án þess að valda skaða, eða hvort tveggja. Vonandi berum við gæfu til að auka þá þekkingu verulega sjúklingum til hagsbóta á næstu árum.