Sam­komu­tak­markanir tóku gildi hér á landi að­fara­nótt sunnu­dags síðast­liðinn eftir mánuð af engum tak­mörkunum en fjölda­tak­markanir miða nú við 200 manns, eins metra regla hefur verið tekin upp á nýjan leik, og grímu­skylda sett á víða. Þær tak­markanir eru í gildi til 13. ágúst en ekki liggur fyrir hvað tekur við þá.

„Það er ó­mögu­legt að segja, við bara enn þá að fara yfir þessi mál og gerum dag­lega hættu­mat og erum í sam­skiptum við okkar ráð­herra um þessi mál og höldum þeim upp­lýstum en það eru ekki orðið tíma­bært að taka neinar slíkar á­kvarðanir,“ sagði Víðir Reynis­son yfir­lög­reglu­þjónn að­spurður um hvað taki við þegar reglu­gerðin rennur út.

„Það eru alveg þó­nokkuð margir dagar í það, við eigum að fá reynslu af þeim tak­mörkunum sem eru í gildi þannig við skulum bara bíða og sjá,“ sagði Víðir enn fremur. Vegna nýrra tak­markana hefur við­burðum um allt land verið af­lýst um verslunar­manna­helgina, þar á meðal Þjóð­há­tíð, og er ó­ljóst hvað tekur við.

Lítið hægt að segja til um framhaldið

Mikill fjöldi smita hefur greinst innan­lands undan­farna daga en þrjá daga í röð hefur fjöldi smita verið yfir 100, það mesta frá því að far­aldurinn hófst. Flestir sem nú eru að greinast eru bólu­settir og er Delta-af­brigði veirunnar, sem er talið meira smitandi en fyrri af­brigði kóróna­veirunnar, það sem fólk er nú helst að smitast af.

Að sögn Kamillu Sig­ríðar Jósefs­dóttur, stað­gengli sótt­varna­læknis, eru vonir bundnar við að í fram­tíðinni komi sér­tæk bólu­efni sem virki betur gegn af­brigðinu. Erfitt sé að segja til um hve­nær heimurinn geti farið að taka CO­VID-19 eins og öðrum flensum.

„Það er bara hætt við því eins og staðan er núna með mjög út­breitt smit víða um heim að það komi á­fram fram ný af­brigði. Við getum náttúr­lega voða­lega lítið sagt til um hversu mikilli út­breiðslu þau gætu mögu­lega náð eða hvernig bólu­efnin, sem við erum ekki einu sinni komin með, myndu virka gegn þeim,“ sagði Kamilla á upp­lýsinga­fundi dagsins.

Taka einn dag í einu

Í heildina eru nú tíu inni­liggjandi á sjúkra­húsi með CO­VID-19 en af þeim eru tveir á gjör­gæslu. Sótt­varna­yfir­völd hafa vísað til þess að bólu­settir ein­staklingar sem smitast sýni gjarnan vægari ein­kenni og sagði Alma Möller land­læknir á fundinum í dag að vonandi yrði legu­tími inni­liggjandi sjúk­linga styttri en ella.

„Auð­vitað erum við bara enn það á þeim stað að við erum að meta hversu mikil veikindi verða og við tökum bara einn dag í einu,“ sagði Alma og bætti við að vel sé fylgst með stöðu mála en það væri ekki hægt að spá til um hvernig hún muni þróast.