Dóm­stóll í Hollandi úr­skurðaði að hollenskri ömmu bæri að eyða öllum myndum sem hún hefur birt af barna­börnum sínum á sam­fé­lags­miðlum á borð við Face­book og Pin­terest. Konan hafði lent upp á kant við dóttur sína, móður barnanna, sem tók til sinna ráða og stefndi konunni.

Dómari í málinu komst að þeirri niður­stöðu að mynd­birtingar ömmunnar brutu gegn per­sónu­verndar­lögum Evrópu­sam­bandsins. Þær myndir sem ekki voru birtar með leyfi for­ráða­manna baranna ættu því að vera fjar­lægðar tafar­laust.

Neitaði að fjar­lægja myndirnar

Amman hafði áður neitað að fjar­lægja myndirnar þrátt fyrir að móðirin hafi þrá­beðið hana um það. Í dómnum kom fram að með því að birta myndirnar á Face­book væri þær mögu­lega gerðar að­gengi­legar þriðja aðila og því ó­mögu­legt að tryggja öryggi myndanna.

Fari amman ekki eftir til­mælum dómarans mun hún hljóta fimm­tíu evra dag­sekt þar til hún fjar­lægir myndirnar. Sektin getur þó ekki orðið hærri en þúsund evrur.