Smit af Ómíkron-afbrigðinu af Covid veitir litla vörn gegn síðara smiti með því að efla ónæmiskerfið, jafnvel meðal þeirra sem eru þríbólusettir.

Þetta er niðurstaða greiningar sem gerð var í Bretlandi.

Samkvæmt Skynews skýrir þetta hvers vegna svo margir hafi smitast í annað sinn af Covid, jafnvel tvisvar af Ómíkron á meðan bylgja þess afbrigðis hefur gengið yfir.

„Það að smitast af Ómíkron eflir ekki mikið ónæmi gegn síðara smiti af Ómíkron,“ segir Rosemary Boyton prófessor við Skynews.

Boyton er ónæmisfræðingur við Imperial College í London. Hún leiddi rannsókn á Covid í heilbrigðisstarfsfólki.

Niðurstaðan bendir til þess að Ómíkron-smit veiti ekki aukna vernd gegn nýjum undirafbrigðum af Ómíkron sem hafa verið að dreifa sér í Bretlandi að undanförnu. Taka skal fram að í rannsókninni var aðeins horft á smit af Covid og að bóluefnin halda áfram að veita góða vörn gegn því að þeir sem smitast verði alvarlega veikir eða látist.

Tekin voru blóðsýni úr yfir sjö hundruð starfsmönnum í heilbrigðiskerfinu, sem fylgst hefur verið með frá því á fyrstu mánuðum faraldursins, eða frá því í mars 2020. Þannig hefur verið hægt að fylgjast með örvunaráhrifum mismunandi Covid-smita á mismunandi þætti ónæmiskerfisins.

Segir Skynews þá mynd hafa dregist upp að þeir sem ekki höfðu fengið Covid áður en smituðust af Ómíkron-afbrigðinu eftir að hafa fengið þrjá bóluefnaskammta, höfðu gott ónæmi gegn Alfa- og Delta-afbrigðunum af Covid en síður gegn Ómíkron. Og fyrri smit með öðrum afbrigðum höfðu ekki heldur mikil áhrif á ónæmiskerfið gagnvart Ómíkron.

Enn fremur segir í frétt Sky­news að þeir sem smituðust af Alfa-afbrigðinu á fyrri stigum faraldursins hafi minni mótefnasvörun gegn Ómíkron og að Ómíkron-smit hafi ekki eflt ónæmissvörun þeirra í heild.

„Við komumst að því að Ómí­kron er fjarri því að vera sá náttúrulegi ónæmishvati sem við gætum hafa haldið að það væri, heldur er það mjög öflugt í að komast fram hjá ónæmiskerfinu,“ segir að Danny Altmann prófessor, sem einnig kom að rannsókninni hjá Imperial College. „Ómíkron flýgur undir radarnum svo ónæmiskerfið getur ekki lagt það á minnið.“