Ó­míkron af­brigðið af Co­vid-19 veirunni er strax komið á toppinn í Suður-Afríku og búið að taka fram úr Delta af­brigðinu sem það sem mest er að greinast í fólki þessa dagana. BBC greinir frá þessu.

8500 ný smit greindust í landinu í gær. Daginn áður voru þau 4300 en voru til saman­burðar á milli 200 og 300 í landinu í nóvember. Sér­fræðingar segja að um fjórðu bylgju far­aldursins sé að ræða í Afríku.

Margt er á huldu um hið nýja af­brigði. Það hefur nú greinst í hið minnsta 24 löndum en Ind­land, Ghana, Sádí-Arabía og Sam­einuðu arabísku fursta­dæmin hafa nú bæst þar á lista.

Grunn­gögn vísinda­manna benda til þess að af­brigðið sé meira smitandi en Delta af­brigðið. Alls­kostar ó­ljóst er hins­vegar á þessari stundu hvort það hafi í för með sér frekari veikindi fyrir ein­stak­linga en Delta af­brigðið.