Fyrsta kórónuveirusmitið af Ómíkron-afbrigðinu var staðfest á Íslandi í kvöld en það greindist í sjúklingi á Landspítalanum.

Mbl.is greinir frá.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Hann segir sjúklinginn ekki hafa smitast erlendis, ekki sé ljóst hvaðan smitið komi. Þá sé sjúklingurinn með hefðbundin einkenni.

Már segir í samtali við mbl.is að sjúklingurinn hafi lagst inn á spítalann vegna veikinda af völdum kórónuveirunnar. Grunur um hið nýja afbrigði hafi vaknað og að sá grunur hafi verið staðfestur í kvöld.

Miklar vangaveltur um nýja afbrigðið

Ómíkron-afbrigðið greindist fyrst í Suður-Afríku og eru miklar vangaveltur um þetta nýja afbrigði.

Líkt og áður eru menn að velta fyrir sér spurningum á borð við; hversu hratt nýja afbrigðið dreifir sér, getu þess til að komast fram hjá þeirri vernd sem bóluefni veita og hvað sé hægt að gera.