Ýmsir hafa velt upp þeirri hugmynd að Omíkron muni á endanum breyta Covid-19 úr drepsótt yfir í árstíðabundna pest. Afbrigðið sé það bráðsmitandi og veikindin það væg að það muni yfirgnæfa önnur afbrigði með lítt alvarlegum afleiðingum. Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, telur líklegt að of snemmt sé að hrósa happi.

Eitt eða tvö afbrigði þurfi líklega til viðbótar.

„Það er sumt sem bendir til þess að það smiti meira en það vantar enn þá meiri upplýsingar. Mín tilfinning er að það smiti meira en Delta-afbrigðið en sennilega kemur þetta í ljós um miðja næstu viku,“ segir Björn. „Fyrstu niðurstöður benda til að þessi stofn sé mjög svipaður og Delta þegar kemur að alvarleika og einkennin mjög svipuð.“

Líklega sé ekki ástæða til þess að óttast að einkennin séu alvarlegri.

Tvennt skiptir máli þegar kemur að hversu vel veirur geta smitast. Annars vegar hversu fljót veiran er að komast inn fyrir varnir slímhúðarinnar og inn í blóðið. Hins vegar hæfileiki hennar til þess að fjölga sér þegar hún hefur komist inn fyrir frumuvegginn.

Delta-afbrigðið smitar tvisvar sinnum meira en upprunalega Covid-19 veiran, Alfa, og 40 til 60 prósentum meira en fyrsta afbrigðið af henni. Er það vegna þess að Delta er öflugri að fjölga sér en fyrri afbrigði. Verið er að rannsaka byggingu Omíkron um þessar mundir.

„Það er að verða komin nokkuð góð mynd af byggingu Omíkron og verið að reyna að nota þau mótefni sem eru til, mótefni úr blóði bólusetts fólks, til að hindra það,“ segir Björn. „Þetta mun gefa góða mynd af því hvernig bóluefnin reynast. Af því sem ég hef þegar séð tel ég að þau muni virka að sambærilegu marki og gegn Delta-afbrigðinu.“

fréttablaðið/getty

Reyndist svo ekki vera væri það slæmt að mati Björns. Hann á þó von á því að einhvern tímann muni koma fram afbrigði sem bóluefnin virki hreinlega ekki á. Þá gæti smittíðnin hins vegar orðið minni og einkennin sömuleiðis.

Björn segir að þó að enn eitt afbrigði Covid-19 sé komið fram sé ekki tími til að örvænta. Gríðarlega mörg lyf séu í þróun og lofi mjög góðu hvað virkni varðar. Bæði veirulyf sem drepi veirur inni í frumunum og mótefnalyf, sem séu því miður kostnaðarsöm.

„Við værum í gerbreyttri aðstöðu ef mótefnalyfin væru ekki svona dýr,“ segir hann. Þá hafi heimurinn komið sér upp mjög öflugum bóluefnamaskínum, sem vinni bæði hratt og örugglega.