Hið bráðsmitandi Omíkron-afbrigði Covid-19 veirunnar er komið til Íslands, aðeins viku eftir að það var uppgötvað í Suður-Afríku. Hefur það uppgötvast í mörgum löndum og grunur leikur á að það sé nú þegar orðið útbreitt.

Hér greindist fullorðinn karlmaður með afbrigðið á miðvikudagskvöld, en hann dvelur nú á Landspítala með dæmigerð Covid-19 einkenni. Tveir aðrir greindust á fimmtudag. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir smitrakningu ganga vel og gerir ráð fyrir því að töluvert margir í nærumhverfi þeirra smituðu séu einnig smitaðir af Omíkron-afbrigðinu.

„Ég veit ekki hversu útbreitt Omíkron er í samfélaginu en það myndi ekki koma mér á óvart ef það væri útbreitt í kringum þennan einstakling,“ segir Þórólfur.

Eins og er, er Delta-afbrigði veirunnar alls ráðandi hér á landi, sem og annars staðar. Það uppgötvaðist fyrst á Indlandi seint á síðasta ári. Þórólfur segir að ef smithæfni Omíkron reynist meiri gæti það tekið yfir.

Rannsóknir á algjöru frumstigi

Afbrigðið uppgötvaðist aðeins fyrir rúmri viku og rannsóknir eru á algjöru frumstigi. Aðeins brotabrot tilfella hefur verið raðgreint í Suður-Afríku þar sem sprengja hefur orðið í smitum. Þá er það ógnvænlegt á hversu mörgum stöðum Omíkron hefur greinst, í öllum heimsálfum, nú þegar. Þegar Fréttablaðið fór í prentun hafði afbrigðið greinst í 31 landi en í gær voru ný lönd sífellt að bætast við.

„Enn þá eru vísindamenn að spá og bollaleggja út frá þeim gögnum sem komin eru fram en endanlegar niðurstöður munu ekki liggja fyrir fyrr en eftir einhverjar vikur,“ segir Þórólfur.

Á þessu stigi sé ekki hægt að fullyrða neitt um hvernig afbrigðið hegði sér. Hvort það hafi sama meðgöngutíma og fyrri afbrigði, hvort alvarlegri veikindi komi fram síðar og svo framvegis. „Ef afbrigðið veldur í næstum öllum tilfellum mjög vægum einkennum þurfum við ekki að hafa miklar áhyggjur. Enn eru engar vísbendingar um að það valdi alvarlegum sjúkdómi,“ segir Þórólfur og vísar til þeirra upplýsinga sem hafa verið að berast frá Evrópu, þar sem útbreiðslan virðist vera mest utan Suður-Afríku.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Fréttablaðið/Aðsend

Persónulegar sóttvarnir enn mikilvægar

Helstu spurningarnar eru hversu mikla vernd núverandi bóluefni veiti gegn Omíkron, sem og hvort þeir sem hafa fengið Delta eða önnur afbrigði Covid-19 sýkist. Einnig hvaða áhrif mismunandi gerðir bóluefna hafa á afbrigðið. Forstjóri Moderna hefur þegar gefið það út að bóluefnið veiti sennilega ekki næga vörn gegn Omíkron.

Sá sem greindist fyrst hér á Íslandi var fullbólusettur og með örvunarskammt. Þórólfur bendir á að samkvæmt rannsóknum Thors Aspelund, prófessors í líftölfræði við Háskóla Íslands, og félaga hans veiti örvunarskammturinn 90 prósentum meiri vörn gegn Delta-afbrigðinu en annar skammtur bóluefnis. Ekki sé óhugsandi að hið sama gæti átt við um Omíkron, að örvunarskammturinn veiti vernd fyrir alvarlegum veikindum.

Þar til frekari upplýsingar liggja fyrir gildi sömu lögmál og um önnur afbrigði veirunnar. Það er að sinna persónubundnum sóttvörnum og fara í PCR-sýnatöku finni maður einkenni, hraðpróf séu einungis notuð í skimunum einkennalausra.