Leikarinn Gunnar Smári Jóhanns­son furðar sig á því að tveir leik­skólar á höfuð­borgar­svæðinu hafi af­bókað barna­sýninguna Ómar Orða­belgur á þeim for­sendum að hún fjalli um dauðann. „Þessi sýning fjallar um alls­konar orð og upp­runa þeirra, og eitt þessara orða er dauðinn,“ segir Gunnar í sam­tali við Frétta­blaðið. Inn­tak sýningarinnar snúi frekar að því að út­skýra orð og hvað það þýði að syrgja.

Síðustu tvo mánuði hefur Gunnar ferðast um landið og sýnt Ómar Orða­belg í leik­skólum í nánast hverju einasta bæjar­fé­lagi við góðar við­tökur, en leik­sýningin er á vegum Þjóð­leik­hússins. Gunnar segir að þegar til stóð að setja leiksýninguna upp í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu hafi fræðslustjóri Þjóðleikhússins tilkynnt sér að tveir leikskólar hafi afpantað sýninguna sökum þess að hún „þyki óviðeigandi“.

Hæðist ekki að dauðanum

„Stjórn­endur leik­skólanna tóku sér þá það bessa­leyfi að segja að ég væri að hæðast að dauðanum fyrir framan börn, án þess að nokkurt þeirra hafi komið á sýninguna,“ segir Gunnar og bætir við að það eigi sér enga stoð í raun­veru­leikanum. „Í staðinn fyrir að á­lykta um hvað sýningin snýst hefði frekar átt að eiga sam­tali við til dæmis við Björn Inga, leik­stjóra sýningarinnar, Þjóð­leik­hús­stjóra eða mig.“

Gunnar bendir á að Þjóð­leik­húsið þurfi að fylgja á­kveðnum verk­reglum áður en sýningar eru sýndar börnum. „Reglurnar koma til dæmis í veg fyrir að leikarar fari að tala um hel­förina við börn í sýningu,“ bætir Gunnar við. Því ætti að vera hægt að treysta Þjóð­leik­húsinu til að setja ekki á lag­girnar sýningu sem myndi særa blygðunar­kennd barna.

Gunnar Smári skrifaði leikritið að hluta til út frá eigin reynslu af missi.

Lærir um missi

Að sögn Gunnars er um að ræða fræðandi sýningu þar sem börn fara í ferða­lag með Ómari Orða­belgi um heim orðanna en á­kveðinn vendi­punktur er í sýningunni þegar Ómar fær bréf þar sem stendur að amma hans sé með lang­vinna lungna­teppu. Þegar Ómar kemst að því hvað það þýðir leitar hann að töfra­drykk en amma hans deyr áður en hún fær lækninguna.

„Þá veit hann ekki alveg hvernig hann á að taka því vegna þess að hann hefur aldrei lært hvað orðið dauði þýðir, hann leitar síðan að þýðingu orðsins en þá er einna helst verið að fjalla um hvernig er að syrgja.“

Missti báða foreldra sína ungur


Gunnar skrifaði leik­ritið að hluta út frá eigin reynslu en hann missti föður sinn á leik­skóla­aldri og síðan móður sína þegar hann var að­eins tólf ára. „Þar á milli missti ég síðan afa minn og ömmu, þannig að æska mín var ekkert annað en dauðs­föll ofan á dauðs­föll,“ segir hann. Í sýningunni ræðir Ómar við leikarann Gunnar sem þrátt fyrir missi sinn hefur það gott í dag.

„Ég segi þeim mína sögu um það að missa for­eldra mína og hvernig það er að syrgja ein­hvern sem deyr, að deyja er hluti af lífinu, við fæðumst öll og við deyjum öll. Ég fæ aldrei að hitta mömmu og pabba aftur en þó svo að ein­hver deyi, þá deyja aldrei minningar, þegar ég sakna for­eldra minna þá hugsa ég til þeirra og tala um þau við vini mína og fjöl­skyldu og þá er eins og þau séu enn þá hjá mér.“

Dauðinn sýnilegur í Disney ævintýrum


Eftir sýningar spjallar Gunnar venju­lega við börnin og talar um sýninguna og leik­hús al­mennt. „Sam­kvæmt mínum ó­ná­kvæmu út­reikningum hafa um það bil þriðjungur barna séð Ronju Ræningja­dóttir í Þjóð­leik­húsinu en þar deyr ein­mitt Skalla­pésa úr elli.“ Gunnar bendir á að það sé um 40 prósent lík­legra að aðal­per­sóna deyi í Dis­n­ey ævin­týrum en í há­dramatískum bíó­myndum fyrir full­orðið fólk. „Ég áttaði mig á því sem barn að dauðinn er ó­um­flýjan­legur en í gegnum bíó­myndir eins og bróðir minn í ljóns­hjarta komst ég að því að það má alveg tala um hann, það geti jafn­vel hjálpað.“

Ómar Orðabelgur leitar að uppruna orða.