Ómar Már Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri, sækist eftir fyrsta sæti á lista Mið­flokksins í borgar­stjórnar­kosningunum núna í vor. Nú­verandi odd­viti flokksins í Reykja­vík, Vig­dís Hauks­dóttir, til­kynnti fyrr í vikunni að hún ætlar ekki aftur fram í borginni.

Ómar segir í til­kynningu á Face­book-síðu sinni að sveitar­stjórnar­mál séu honum ekki ó­kunn en hann starfaði áður sem sveitar­stjóri Súða­víkur­hrepps frá 2002 og svo í sveitar­stjórn frá 2006 og til 2014. Þá er hann heldur ekki nýr Mið­flokknum því fyrir al­þingis­kosningarnar síðasta haust var hann í fjórða sæti á lista í Reykja­vík.

„Það hefur verið nokkur að­dragandi að þessari á­kvörðun minni eða allt síðan Vig­dís Hauks­dóttir, hin skel­eggi borgar­stjórnar­full­trúi flokksins, á­kvað að draga sig í hlé. Ó­hætt er að segja að fáir eða engir hafi haldið úti jafn kröftugri stjórnar­and­stöðu og Vig­dís og við Mið­flokks­menn þökkum henni störfin. En nú er komið að öðrum að halda uppi merki flokksins og stefnu,“ segir Ómar í til­kynningu sinni og að þegar Vig­dís hætti þá hafi hann ekki getað sleppt tæki­færinu.

Ómar er fæddur og upp­alinn á Vest­fjörðum en flutti til Reykja­víkur árið 2014 og hóf fyrir­tækja­rekstur.

„Það er mikil á­skorun að koma inn í borgar­stjórn Reykja­víkur á þessum tíma­mótum. Aug­ljós­lega þarf að gera gagn­gerar breytingar á rekstri borgarinnar og ná tökum á fjár­málum hennar. Um leið þarf að styrkja þjónustu við íbúa hennar og ráðast í öll þau brýnu verk­efni sem hafa setið á hakanum. Ég mun nú næstu vikur kynna fyrir ykkur hvar mínar mál­efna­legu á­herslur liggja,“ segir Ómar í til­kynningunni sem er hér að neðan.