Meðferð sem geðsjúkur maður var beittur á geðsjúkrahúsi í Danmörku árið 2013 braut gegn ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um bann við pyndingum og ómannúðlegri meðferð. Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu, sem birt var í gær.

Maðurinn var ólaður fastur við rúm í 23 klukkustundir samfellt en í niðurstöðu MDE segir að um allra lengsta tímabil slíkrar þvingunar sé að ræða sem komið hafi til kasta dómsins.

Með vísan til sögu ofbeldisfullrar hegðunar sjúklingsins gerði dómstóllinn ekki athugasemd við að hann hefði verið ólaður niður, í því skyni að tryggja öryggi starfsfólks og annarra sjúklinga. Hins vegar hefðu innlendir dómstólar brugðist skyldu sinni til að meta önnur atriði eins og hvort nauðsynlegt hefði verið að beita þvinguninni svo lengi sem raunin varð, en fyrir liggur að maðurinn var orðinn rólegur mörgum klukkustundum áður en losað var um höftin.

Var danska ríkið dæmt til að greiða kærandanum tíu þúsund evrur í bætur og fjögur þúsund evrur til viðbótar í málskostnað.