Þann 7. apríl rann út frestur til að skila inn umsögn um frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum. Frumvarpið er lagt fram í þriðja sinn á þessu þingi en þó aldrei alveg eins. Alls bárust 11 umsagnir frá ýmsum aðilum, þar á meðal Útlendingastofnun, Kærunefnd útlendingamála, prestum sem hafa starfað með flóttafólki, Amnesty á Íslandi, Mannréttindaskrifstofu Íslands og fleirum.

Þá skilaði Rauði kross Íslands einnig inn umsögn og það í þriðja sinn um frumvarpið. Í frétt á vefsíðu þeirra frá því í síðustu viku kemur fram að þau hafi skilað inn ítarlegri umsögn um málið fyrir tæpu árið síðan þar sem þau gerðu alvarlegar athugasemdir við mörg ákvæði þess. Þau segja þær enn standa.

„Má þar helst nefna ákvæði um sjálfkrafa kæru og styttingu fresta til að leggja fram greinargerð vegna kæru. Þá má nefna ákvæði frumvarpsins sem þrengja að réttindum þeirra umsækjenda sem koma frá svokölluðum öruggum upprunaríkjum, ákvæði um skerðingu eða niðurfellingu þjónustu þegar fyrir liggur framkvæmdarhæf ákvörðun og tillaga um nýtt réttarúrræði sem kallast endurtekin umsókn. Þá eru gerðar alvarlegar athugasemdir við ákvæði 12. gr. frumvarpsins sem skerða verulega möguleika þeirra sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki til verndar hér á landi. Enn fremur eru gerðar athugasemdir við tillögur frumvarpsins að breytingum sem þrengja möguleika ríkisfangslausra einstaklinga til að fá hér vernd á grundvelli ríkisfangsleysis,“ segir í frétt Rauða krossins um málið.

Hafa gert athugasemdir við frumvarpið tvisvar áður

Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur og talsmaður umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossi Ísland, segir að frumvarpið sé í raun ekki allt nýtt það hafi í tvígang verið lagt fram áður og Rauði krossinn gert athugasemdir það.

Guðríður Lára segir að frumvarpið sé búið að vera lengi í vinnslu og segir að málið hafi upphaflega byrjað þegar Sigríður Andersen var dómsmálaráðherra og svo tók Þórdís Kolbrún R. Norðfjörð við málinu þegar hún tók við af henni en Áslaug Arna er nú þriðji ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem leggur fram breytingar á útlendingalögunum.

„Þegar Sigríður var ráðherra varð aukning á umsóknum frá fólki sem var þegar með vernd í Grikklandi og þetta voru þá einhvers konar viðbrögð við því. Þeim fækkaði svo aftur hlutfallslega en eru núna aftur orðin stór hluti af heildarfjölda umsókna hér á Íslandi og með þessu frumvarpi er tekið fyrir að það sé hægt að skoða sérstakar ástæður, eða þær teknar til greina, þegar fólk er þegar með vernd annars staðar. Þetta er í raun afturhvarf til eldri laga. Gömlu lögin voru svona,“ segir Guðríður Lára.

Í andstöðu við það sem almenningur hefur kallað eftir

Hún rifjar upp mál fjölskyldu sem kom frá Grikklandi árið 2015 sem vakti mikla fjölmiðlaathygli. Í fjölskyldunni voru tvær ungar stúlkur og þau voru búsett í Vesturbænum.

„Á þessum tíma var ekki heimilt að veita fjölskyldunni alþjóðlega vernd þar sem ekki var heimilt að taka málið til efnismeðferðar en aðstæður þeirra á Grikklandi voru algjörlega óviðunandi. Málið vakti mikla athygli og að endingu fengu þau dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Eftir þetta var fólk sammála um að þessi leið væri ekki fýsileg og í útlendingalögunum sem tóku gildi 1. janúar 2017 var kveðið á um að skoða bæri hvort sérstakar ástæður væru til staðar þegar fólk með vernd í öðru ríki legði fram umsókn. Með þessum nýju breytunum á að hverfa aftur til þessa tíma og veita, til dæmis, alvarlega veikum einstaklingum eða barnafjölskyldum mannúðarleyfi, en ekkert annað,“ segir Guðríður Lára og vísar þá til þess að ekki sé hægt að veita þeim efnislega meðferð auk þess sem fólk sem kemur sem er þegar með vernd annars staðar verða undanskilin tímafresti en það sé nýtt ákvæði í frumvarpinu.

Guðríður Lára segir að til að setja það í samhengi þá sé ekki langt síðan ákvæði um tímafresti leiddu til þess að tvær fjölskyldur, Zainab Safari og fjölskylda hennar og Sarwary-feðgarnir, fengu alþjóðlega vernd hér eftir kröftug mótmæli skólafélaga þeirra í Hagaskóla. Á þeim tíma setti þáverandi dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún, reglugerð sem kvað á um 10 mánaða frest í málum barna með vernd í öðru ríki og þá þurfti ekki að vísa fjölskyldunum frá landi. Almenni fresturinn er 12 mánuðir en nú á að undanskilja fólk með vernd í öðru ríki frá því að öðlast réttindi vegna tafa á meðferð máls.

„Þannig jafnvel þótt við værum með börn sem væru búin að vera hérna á Íslandi í meira en 10 eða 12 mánuði þá ættu þau ekki að fá að njóta þessa réttar og fá umsókn sína tekna til skoðunar. Þetta er í algerri andstöðu við það sem almenningur hefur verið að kalla eftir síendurtekið í almennum mótmælum og undirskriftasöfnunum vegna einstakra mála,“ segir Guðríður Lára.

Engin rök fyrir sérreglum fyrir fólk með vernd í öðru ríki

Hver er röksemdin fyrir því í nýju lögunum að þessi tímafrestur sé tekinn af fólki sem kemur hingað en er með vernd í öðru ríki?

„Það eru engar röksemdir fyrir því,“ segir Guðríður Lára sem segir að þetta sé heldur ekki augljóst í frumvarpinu.

Hún segir engin rök fyrir því að það ættu að gilda sérreglur um tímamörk fyrir fólk með vernd í öðru ríki.

„Tímamörkin hafa ekkert með það að gera á hvaða grundvelli þú leggur fram umsögn. Það snýr bara að því að stjórnvöldum séu sett ákveðnar skorður við því hversu langan tíma þau geta tekið sér til að afgreiða mál, ef stjórnvöld geta ekki klárað mál innan tilskilins tíma þá eiga umsækjendur ekki að bera hallan af því heldur öðlast réttindi til áframhaldandi dvalar. Það er ómannúðlegt að halda fólki í óvissu um framtíð sína í langan tíma. Um þetta eru held eg flestir sammála, hvaða skoðanir sem fólk kann að hafa á útlendingamálum almennt“ segir Guðríður Lára.

Þá segir hún að önnur markverð breyting á frumvarpinu í þessari þriðju tilraun sé að það eigi að byrja að miða lok frests við það hvenær úrskurður stjórnvalda er birtur og að eftir að úrskurður hefur verið birtur þá öðlist fólk engan rétt, jafnvel þó það dvelji hér áfram í mánuði eða ár án þess að unnt sé að flytja það til viðtökuríkis. Hún vísar til máls Muhammed Zohair Faisal sem var sex ára drengur í Vesturbæjarskóla en í byrjun árs 2020 átti að vísa honum og fjölskyldu hans úr landi.

„Þau fengu niðurstöðu eftir 16 og hálfan mánuð og þá var miðað við 18 mánuði, en þau voru hérna í tvö ár áður en það átti að flytja þau úr landi. Í þessu máli var reglugerð líka breytt eftir mótmæli og undirskriftasafnanir, ráðherra og aðrir sáu að þarna var galli í lögunum en nú á að lögfesta þennan galla í Dyflinnarmálum líka og miða við úrskurð stjórnvalda í stað flutnings úr landi. Rauði krossinn hefur talað fyrir því að miðað sé við heildarmálsmeðferðartíma, það er að segja að lok frests miðist við flutning úr landi en ekki úrskurð stjórnvalda, sérstaklega þegar um er að ræða börn. Það skiptir þau engu máli hvenær úrskurður stjórnvalda er birtur heldur er sá tími sem þau dvelja hér og aðlagast og skjóta rótum sá tími sem skiptir máli og á að miða við,“ segir Guðríður Lára.

Frumvarpið til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd í þinginu núna. Alls skiluðu 11 aðilar inn umsögnum en töluverð vinna er enn eftir í nefndinni og hafa umsagnaraðilar ekki enn komið á fund hennar eins og venja er fyrir.

Hægt er að kynna sér frumvarpið nánar hér.