„Hér stend ég nú á eldhúsdegi undir lok þings og flyt síðustu ræðuna fyrir hönd míns þingflokks,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis á eldhúsdegi í kvöld, en hann víkur senn af þingi eftir 38 ára þingmennsku.
Hann sagði þetta stundum hafa verið sitt hlutskipti þegar hann var nýliði á þingi fyrir tæpum fjórum áratugum og gaman sé að standa aftur í þessum sporum.
„Mér finnst gaman að standa aftur í þessum sporum á mínum síðasta eldhúsdegi“
Óður til Alþingis
Í ræðu sinni vék hann fyrst að Alþingi, „æðstu og elstu stofnun landsins, og hverri ég hef helgað krafta mína í umtalsvert meira en helming ævidaganna.“
Alþingi hafi verið eflt á kjörtímabilinu í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála og Alþingi hafi fengið nær allar sínar óskir uppfylltar.
„Kann ég ríkisstjórninni og sérstaklega forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra bestu þakkir fyrir samstarf um þau mál,“ sagði Steingrímur og taldi helstu umbætur.
Nefndarsviðið hafi verið eflt og Lagaskrifstofa fengið aukið starfslið. Starf þingflokkanna hafi líka verið eflt með heilum 17 nýjum starfsmönnum og fjárhagsgrundvöllur þeirra styrktur.
„Mest vegur þó um það bil 6.400 fermetra skrifstofubygging, kjarnabygging, sem nú rís hér vestar á lóðinni, mun gjörbreyta til hins betra vinnuaðstæðum og spara fast að 100 milljónum króna í árlegan húsnæðiskostnað, þegar Alþingi kemur að nýju allri starfsemi sinni undir eigið þak,“ sagði Steingrímur.
Skaðlegt að úthrópa Alþingi
Þá hafi traust til þingsins verið að aukast. Um væri að ræða sextán prósenta stökk á tveimur árum.
„ Alþingi á inni fyrir þessu. Það hefur staðið sig vel og nú síðast gegn um 15 mánaða prófraun kórónuveiru faraldursins, starfað óslitið og þegar afgreitt, sem er hrein viðbót við venjubundin störf, um 60 frumvörp og þingmál sem við köllum Covid-mál. Alþingi á hrós skilið, ekki síður minni hluti en meirihluti, svo ekki sé nú minnst á starfsfólk Alþingis sem hefur sýnt mikið þrek og útsjónarsemi.“
„Traust og virðing Alþingis er áunnið fyrirbæri, og nú tala ég háttvirtir þingmenn inn í okkar eigin hóp.“
Steingrímur sagði eðlilegt að takast stundum á og nauðsynlegt að gagnrýna það sem er gagnrýnivert. Það sé á hinn bóginn „skaðlegt og ómaklegt að úthrópa Alþingi sem ómögulegan vinnustað, sem það er ekki, og tala niður sitt eigið starf í leiðinni. Það er heiður að vera alþingismaður Íslendinga. Því fólki sem hingað inn er kosið er sýndur mikill trúnaður, því er falin mikilvægasta samfélagsþjónusta lýðræðisfyrirkomulagsins.“
„Traust og virðing Alþingis er áunnið fyrirbæri, og nú tala ég háttvirtir þingmenn inn í okkar eigin hóp“
Ógnir samtímans
Næst vék Steingrímur að ógnum sem hann telur steðja að. Sú stærsta án vafa loftslagsváin.
„En það er fleira sem okkur kann að stafa ógn af,“ sagði Steingrímur:
„Það er stundum sagt að það fyrsta sem deyi í stríði sé sannleikurinn. En mér sýnist ekki alltaf þurfa styrjaldir eða vopnuð átök til að sannleikurinn deyi, lúti að minnsta kosti í lægra haldi. Ofgnótt misgóðra upplýsinga, upplýsingaóreiða og beinar falsfréttir sem tæknin gerir kleift að láta flæða um heiminn, er lýðræðinu og hinu siðaða samfélagi stórhættulegt. Skiptir þá ekki öllu máli hvort innlend eða erlend lýðskrums- og niðurrifsöfl eiga í hlut í hinum samtengda heimi. Ískyggilegt er einnig hvernig alþjóðleg auðfyrirtæki vakta okkur hvert fótmál, safna óhemju magni upplýsinga um einkahagi fólks og misfara svo með þær. Hættulegast er þegar þessu tvennu ofangreindu slær saman.“
Yndislegur tími framundan
Steingrím hlakkar til vorsins og sagði fleira en vorið sjálft tilhlökkunarefni.
„Við erum að sjá fram úr faraldrinum, hjól atvinnulífsins að snúast hraðar og það lifnar yfir mannlífinu,“ sagði Steingrímur.
Hann sagði gott gengi gegn faraldrinum mörgum að þakka, heilbrigðisstarfsfólki, sérfræðingum og landsmönnum öllum. Landsmenn í heild hafa almennt farið að tilmælum, treyst sérfræðingum, stutt aðgerðir stjórnvalda og sýnt æðruleysi og úthald sem sumir héldu að Íslendingar ættu ekki einu sinni til,“ sagði Steingrímur og bætti við:
„Friður og samstaða er alltaf dýrmætasta djásnið á hverju heimili, í hverju samfélagi og skiptir engu máli hvaða magn af fánýtum hlutum er vegið þar á móti. Hin almenna og breiða samstaða sem hefur einkennt andrúmsloftið á Íslandi síðastliðna fimtán mánuði er landi og þjóð til sóma og mikil gæfa um leið.“
Svo bauð Steingrímur landsmönnum góða nótt og hinum góðrar skemmtunar sem kunna að taka upp á því að bjarta vornóttina. Margt sé vitlausara.