„Hér stend ég nú á eld­hús­degi undir lok þings og flyt síðustu ræðuna fyrir hönd míns þing­flokks,“ sagði Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti Al­þingis á eldhúsdegi í kvöld, en hann víkur senn af þingi eftir 38 ára þingmennsku.

Hann sagði þetta stundum hafa verið sitt hlut­skipti þegar hann var ný­liði á þingi fyrir tæpum fjórum ára­tugum og gaman sé að standa aftur í þessum sporum.

„Mér finnst gaman að standa aftur í þessum sporum á mínum síðasta eldhúsdegi“

Óður til Alþingis

Í ræðu sinni vék hann fyrst að Al­þingi, „æðstu og elstu stofnun landsins, og hverri ég hef helgað krafta mína í um­tals­vert meira en helming ævi­daganna.“

Al­þingi hafi verið eflt á kjör­tíma­bilinu í sam­ræmi við á­herslur í stjórnar­sátt­mála og Al­þingi hafi fengið nær allar sínar óskir upp­fylltar.

„Kann ég ríkis­stjórninni og sér­stak­lega for­sætis­ráð­herra og fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra bestu þakkir fyrir sam­starf um þau mál,“ sagði Stein­grímur og taldi helstu um­bætur.

Nefndar­sviðið hafi verið eflt og Laga­skrif­stofa fengið aukið starfs­lið. Starf þing­flokkanna hafi líka verið eflt með heilum 17 nýjum starfs­mönnum og fjár­hags­grund­völlur þeirra styrktur.

„Mest vegur þó um það bil 6.400 fer­metra skrif­stofu­bygging, kjarna­bygging, sem nú rís hér vestar á lóðinni, mun gjör­breyta til hins betra vinnu­að­stæðum og spara fast að 100 milljónum króna í ár­legan hús­næðis­kostnað, þegar Al­þingi kemur að nýju allri starf­semi sinni undir eigið þak,“ sagði Stein­grímur.

Skaðlegt að úthrópa Alþingi

Þá hafi traust til þingsins verið að aukast. Um væri að ræða sex­tán prósenta stökk á tveimur árum.

„ Al­þingi á inni fyrir þessu. Það hefur staðið sig vel og nú síðast gegn um 15 mánaða próf­raun kórónu­veiru far­aldursins, starfað ó­slitið og þegar af­greitt, sem er hrein við­bót við venju­bundin störf, um 60 frum­vörp og þing­mál sem við köllum Co­vid-mál. Al­þingi á hrós skilið, ekki síður minni hluti en meiri­hluti, svo ekki sé nú minnst á starfs­fólk Al­þingis sem hefur sýnt mikið þrek og út­sjónar­semi.“

„Traust og virðing Al­þingis er á­unnið fyrir­bæri, og nú tala ég hátt­virtir þing­menn inn í okkar eigin hóp.“

Stein­grímur sagði eðli­legt að takast stundum á og nauð­syn­legt að gagn­rýna það sem er gagn­rýnivert. Það sé á hinn bóginn „skað­legt og ó­mak­legt að út­hrópa Al­þingi sem ó­mögu­legan vinnu­stað, sem það er ekki, og tala niður sitt eigið starf í leiðinni. Það er heiður að vera al­þingis­maður Ís­lendinga. Því fólki sem hingað inn er kosið er sýndur mikill trúnaður, því er falin mikil­vægasta sam­fé­lags­þjónusta lýð­ræðis­fyrir­komu­lagsins.“

„Traust og virðing Al­þingis er á­unnið fyrir­bæri, og nú tala ég hátt­virtir þing­menn inn í okkar eigin hóp“

Ógnir sam­tímans

Næst vék Stein­grímur að ógnum sem hann telur steðja að. Sú stærsta án vafa lofts­lags­váin.

„En það er fleira sem okkur kann að stafa ógn af,“ sagði Stein­grímur:

„Það er stundum sagt að það fyrsta sem deyi í stríði sé sann­leikurinn. En mér sýnist ekki alltaf þurfa styrj­aldir eða vopnuð átök til að sann­leikurinn deyi, lúti að minnsta kosti í lægra haldi. Of­gnótt mis­góðra upp­lýsinga, upp­lýsinga­ó­reiða og beinar fals­fréttir sem tæknin gerir kleift að láta flæða um heiminn, er lýð­ræðinu og hinu siðaða sam­fé­lagi stór­hættu­legt. Skiptir þá ekki öllu máli hvort inn­lend eða er­lend lýð­skrums- og niður­rifs­öfl eiga í hlut í hinum sam­tengda heimi. Í­skyggi­legt er einnig hvernig al­þjóð­leg auð­fyrir­tæki vakta okkur hvert fót­mál, safna ó­hemju magni upp­lýsinga um einka­hagi fólks og mis­fara svo með þær. Hættu­legast er þegar þessu tvennu ofan­greindu slær saman.“

Yndis­legur tími fram­undan

Stein­grím hlakkar til vorsins og sagði fleira en vorið sjálft til­hlökkunar­efni.

„Við erum að sjá fram úr far­aldrinum, hjól at­vinnu­lífsins að snúast hraðar og það lifnar yfir mann­lífinu,“ sagði Steingrímur.

Hann sagði gott gengi gegn far­aldrinum mörgum að þakka, heil­brigðis­starfs­fólki, sér­fræðingum og lands­mönnum öllum. Lands­menn í heild hafa al­mennt farið að til­mælum, treyst sér­fræðingum, stutt að­gerðir stjórn­valda og sýnt æðru­leysi og út­hald sem sumir héldu að Ís­lendingar ættu ekki einu sinni til,“ sagði Stein­grímur og bætti við:

„Friður og sam­staða er alltaf dýr­mætasta djásnið á hverju heimili, í hverju sam­fé­lagi og skiptir engu máli hvaða magn af fánýtum hlutum er vegið þar á móti. Hin al­menna og breiða sam­staða sem hefur ein­kennt and­rúms­loftið á Ís­landi síðastliðna fimtán mánuði er landi og þjóð til sóma og mikil gæfa um leið.“

Svo bauð Stein­grímur lands­mönnum góða nótt og hinum góðrar skemmtunar sem kunna að taka upp á því að bjarta vor­nóttina. Margt sé vitlausara.