Í Úkraínu búa um 46 milljónir manna en þar er mikið atvinnuleysi og fátækt. Íslensku skókössunum er meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra foreldra sem búa við sára fátækt. Megintilgangur verkefnisins Jól í skókassa er að gleðja börn sem sum fengju annars ekki jólagjöf. Síðustu ár hafa safnast um 5.000 kassar.

Gríma Katrín, Ingibjörg Lóreley og Anna Lovísa eru meðal sjálfboðaliða verkefnisins. Þær, eins og margir, geta ekki beðið, enda sé verkefnið besti tími ársins.

Dæmi um innihald í skókassa. Fréttablaðið/Ernir

„Ballið er byrjað! Skókassarnir eru nú þegar farnir að streyma til okkar en skiladagar úti á landi eru flestir liðnir og því slatti kominn í hús. Núna á sunnudaginn breytum við Holtaveginum í verkstæði jólasveinsins. Svo hefjumst við handa við að gera kassana klára fyrir gáminn sem fer út um miðjan nóvember. Skipið endar í Hollandi en flutningur þaðan til Úkraínu getur tekið þó nokkurn tíma. Stærsti kostnaðarliður verkefnisins er einmitt þessi flutningur. Við fylgdum verkefninu út áramótin 2017-18 en jólin þar í landi eru 7. janúar og vorum við dagana fyrir að dreifa gjöfunum til barna. Það geislar ólýsanlegt þakklæti og gleði úr augum þeirra. Þau hafa sum aldrei fengið gjafir og skilja hreinlega ekki af hverju fólk einhvers staðar á Íslandi sé að gefa þeim gjafir. Aðstandendur barnanna eru líka mjög þakklátir, eiga ekki til orð og trúa þessu varla. Við lifum lengi á þessum brosum,“ segir Gríma Katrín.

Hvernig á að búa til kassa?

  1. Pakkið tómum skókassa inn í jólapappír. Athugið að pakka lokinu sérstaklega inn þannig að hægt sé að opna kassann án þess að skemma pappírinn. 2. Ákveðið fyrir hvaða aldur og kyn pakkinn sé. Aldurshóparnir eru eftirfarandi; (3-6), (7-10), (11-14) og (15-18). Skrifið kyn og aldur á miða og límið ofan á kassana.
  2. Setjið 500 - 1000 krónur í umslag og leggið efst í kassann. Peningurinn er fyrir kostnaði sem fylgir verkefninu.
  3. Lokið kassanum með því að setja teygju utan um hann.

Þetta má fara í kassana

Til þess að allir kassarnir séu svipaðir skal setja a.m.k. einn hlut úr hverjum eftirtalinna flokka:

Leikföng: t.d. litla bíla, bolta, dúkku, púsl, bangsa, jó-jó. Athugið að láta auka rafhlöður fylgja rafknúnum leikföngum.Skóladót: t.d. penna, blýanta, yddara, strokleður, skrifbækur, liti, litabækur, pennaveski, skæri, vasareikni.Hreinlætisvörur: Óskað er eftir því að allir setji tannbursta, tannkrem, sápustykki. Svo má setja greiðu, snyrtitösku, þvottapoka, hárskraut ofl.Sælgæti: t.d. sleikjó, brjóstsykur, pez, tyggjó, karamellur.Föt: t.d. húfu, vettlinga, sokka, trefil, bol, peysu.

Það sem má ekki fara í kassana:

Mikið notaðir eða illa farnir hlutir.Matvara og drykki, t.d. kex, svala.Stríðsdót, t.d. leikfangabyssur, leikfangahermenn eða hnífar.Vökvar, t.d. sjampó, krem eða sápukúlur.Lyf, t.d. vítamín, hálsbrjóstsykur eða smyrsl.Brothættir hlutir, t.d. speglar eða postulínsdúkkur.Spilastokkar. Þar sem spilastokkar eru tengdir fjárhættuspilum í Úkraínu, óskum við eftir að þeir séu ekki gefnir í skókassana.