Um helgina voru tuttugu ár liðin frá því að hópur hryðjuverkamanna Al-Kaída rændu fjórum farþegaflugvélum í Bandaríkjunum með það eitt að markmiði að ráðast á Bandaríkin og það sem þau stóðu fyrir.

Ellefti september 2001 er dagur sem gleymist seint. Dagur sem ein mannskæðasta hryðjuverkaárás sögunnar átti sér og 2.750 manns létu lífið, þar á meðal slökkviliðsmenn og lögreglumenn sem létust við björgunarstörf.

„Mamma, hvað er að láta lífið?“

Erla Skúladóttir leikkona hefur búið í New York borg, nánar tiltekið á Manhattan í rúmlega þrjá áratugi. Hún segir frá því í samtali við Fréttablaðið hvernig lífið var þennan örlagaríka dag og hvernig það breyttist á svipstundu þegar flugvélarnar flugu á turnana World Trade Tower og um þrjúþúsund manns létu lífið.

„Þann 11. september 2001 var ég nýkomin heim til mín eftir að hafa farið með sjö ára dóttur mína í skólann. Ég rauk strax aftur út og náði í hana. Seinna þennan sama dag, eftir að hún hafði heyrt okkur foreldrana tala um hversu óumræðilega margir hefði látið lífið, spyr hún mig, „mamma, hvað er að láta lífið?“ Erla segir það ólýsanlegt að þurfa að útskýra þennan hrylling fyrir barninu sínu.

Erla segir aðstandendur hinna látnu ekki hafa viljað fá Joe Biden, Bandaríkjaforseta, á minningarathöfnina í New York.
Fréttablaðið/EPA

Ár hvert eftir hryðjuverkin, að undanskildu árið 2020 vegna kórónuveirufaraldursins, hafa aðstandendur þeirra sem létu lífið komið saman við minnivarðann, þar sem turnarnir stóðu. Eiginkonur og eiginmenn, börn og barnabörn lesa upp nöfn allra þeirra sem þau misstu þennan dag, segir Erla.

„Á hverju ári finnst mér alltaf jafn erfitt að horfa og hlusta, en ég geri það samt í virðingarskyni við hina látnu og aðstandendur þeirra og til að minna sjálfa mig á að svona nokkuð ætti aldrei að gerast aftur.“

Erla segir tilfinninguna innra með sér vera svipaða nú tuttugu árum síðar. „Ég segi svipuð tilfinning, en ekki eins. Því nú, eftir að ríkisstjórn þessa lands dró allt herlið sitt til baka og gaf þar með talíbönum leyfi til að taka völdin í Afganistan, er minningin um þá sem létu lífið þann 11. september 2001, aðilar herliðs Bandaríkjanna og annarra ríkja, sem hafa fórnað sér fyrir frelsi okkar hinna, blandin enn meiri trega,“ segir Erla sem spyr sig hvort öll vinnan síðastliðin 20 ár hafi verið tilgangslaus.

Um helgina kom Bandaríkjaforseti til New York borgar til að votta þeim látnu virðingu sína. Erla segist hafa lesið og séð í fréttum að aðstandendur hinna látnu hafi farið fram á að forsetinn yrði ekki viðstaddur athöfnina síðastliðinn laugardag. Hún segir þetta heilaga stund og hann hafi ekki verið velkominn.

Fallegur dagur sem breyttist í martröð

Ólafur Jóhann Ólafs­son, rit­höfundur og fyrr­verandi að­stoðar­for­stjóri Time Warner var búsettur á þessum tíma í New York með fjölskyldu sinni.

Í samtali við Fréttablaið segir hann segir daginn ellefta septem­ber 2001 hafi byrjað á þann veg að þau hjónin fylgdu sonum þeirra í skólann.

„Þetta var fyrsti skóladagurinn, og gat ekki fallegri verið, hvergi ský að sjá. Þegar við höfðum kvatt þá tók ég leigubíl niður Fifth Avenue.

Bílstjórinn var með útvarpið í gangi. Þar heyrði ég af fyrstu flugvélinni.Við héldum að þetta væri lítil útsýnisflugvél sem hefði líklega villst af leið. Skrifstofa mín var í Rockefeller Center. Þangað var ég kominn þegar seinni flugvélin flaug á syðri turninn. Ég var með útsýni niður eftir.

Borgin er gróin þessara sára en ég held að enginn atburður sitji eins í minningu þeirra sem upplifðu hann.

Nú er hún að jafna sig eftir farsóttina. Það verða einhver ör eftir hana líka,“ segir Ólafur.