Íþróttakonan Marieke Vervoort, sem hlaut gull og silfur á Ólympíuleikum fatlaðra árið 2012, hefur ákveðið að nýta sér dánaraðstoð í Belgíu en þetta kemur fram í frétt Guardian um málið. Hin fertuga Vervoort hafði áður skrifað undir skjöl um líknardráp og ákvað að binda enda á líf sitt síðastliðinn þriðjudag, 21. október.
Vervoort keppti einnig á Ólympíuleikum fatlaðra í Brasilíu fyrir þremur árum en það var þá sem hún greindi frá því að hún glímdi við ólæknandi hrörnunarsjúkdóm. Hún lýsti því að sjúkdómurinn gerði það að verkum að hún hafi stanslaust fundið fyrir verkjum og svæfi oft lítið sem ekkert á næturnar vegna þess.

Tókst á við lífið einn dag í einu
Vervoort hafði lengi verið talsmaður dánaraðstoðar en hún sagði að það gæfi henni styrk að vera með skjölin sem heimiluðu líknardráp. „Ef ég hefði ekki þessi skjöl þá held ég að ég væri búin að fremja sjálfsmorð,“ sagði Vervoort í viðtali árið 2016 og bætti við að hún teldi líklegt að sjálfsmorðum myndi fækka með komu líknardrápa.
„Ég vona að allir sjá að þetta sé ekki morð, heldur gefur fólki tækifæri á að lifa lengur,“ sagði Vervoort og lýsti því að hún að hún hafi tekist á við lífið einn dag í einu. „Þú verður að lifa frá degi til dags og njóta hvers augnabliks.“
Dánaraðstoð var lögleidd í Hollandi og Belgíu árið 2002 og síðar voru settar reglur þar sem læknar þurftu að tilkynna um slík tilvik. Samkvæmt lögunum þarf viðkomandi sjúklingur að þjást af ólæknandi sjúkdómi og engin von vera um bata. Hann þarf sjálfur að óska eftir dánaraðstoð og vera metinn hæfur til að taka slíka ákvörðun. Óháður læknir þarf að staðfesta mat læknis viðkomandi sjúklings.