Nóg var um að vera hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu í gær­kvöldi og í nótt en að því er kemur fram í dag­bók lög­reglu var tölu­vert um há­vaða­kvartanir hjá öllum lög­reglu­stöðvum.

Hjá lög­reglu­stöð eitt, sem sinnir Austur­bæ, Mið­bæ, Vestur­bæ, og Sel­tjarnar­nesi, komu upp þó nokkur mál milli 19 og 22 þar sem ölvaðir ein­staklingar voru til vand­ræða. Enginn var þó hand­tekinn þar sem málin voru leyst með að­komu lög­reglu.

Í einu til­felli var um að ræða ofur­ölva mann sem var að reyna að opna bíla í mið­bænum en manninum var vísað á brott eftir við­ræður við lög­reglu.

Skömmu fyrir klukkan 3 í nótt var síðan til­kynnt um mann sem fann ekki heimili sitt og var að reyna að banka hjá fólki til að komast inn en honum var ekið heim af lög­reglu.

Líkamsárásir í miðbænum

Þá komu líkams­á­rásir á borð lög­reglu en skömmu eftir klukkan 23 í gær var til­kynnt um líkams­á­rás á skemmti­stað í mið­bænum og er málið til rann­sóknar lög­reglu. Klukkan hálf tólf var síðan til­kynnt um líkams­á­rás utan­dyra í mið­bænum.

Fyrr um daginn hafði lög­regla í Kópa­vogi og Breið­holti fengið til­kynningu um menn í á­tökum. Einn var þar hand­tekinn vegna málsins og var hann vistaður í fanga­geymslu fyrir rann­sókn málsins.

Innbrot og þjófnaður

Meðal annarra verk­efna lög­reglu í gær og í nótt voru til­kynningar um inn­brot en í einu til­felli hlupu menn sem voru að reyna að brjótast inn í bíla af vett­vangi þegar lög­reglu bar að garði.

Í öðru til­felli var til­kynnt um mann sem var að stela dekkjum undan bíl. Lög­regla stóð manninn að þjófnaðinum og var hann hand­tekinn á vett­vangi.