Talsverður erill var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og í nótt. Þó nokkuð var um ölvunarakstur en nítján ökumenn voru stöðvaðir fyrir grun um akstur undir áhrifum áfengis.

Lögreglan setti upp umferðarpóst á Bústaðavegi í nótt þar sem athugað var með ástand ökumanna og ökutækja. Átta ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrif áfengis og sumir einnig fíkniefna.

Þá voru ellefu ökumenn grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna til viðbótar á öðrum stöðum borgarinnar.

Tvö umferðarslys tengd rafmagnshlaupahjólum

Tilkynnt var um fjögur umferðarslys, þar af tvö er tengdust rafmagnshlaupahjólum. Í öðru þeirra var ekið á mann á rafmagnshlaupahjóli en maðurinn hlaut verki í baki og var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðamóttöku. Þá datt annar af rafmagnshlaupahjóli og er talinn hafa misst meðvitund. Sá var einnig fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku.

Í þriðja slysinu var ekið á gangandi vegfarenda en sá hlaut skurð á höfði en var með meðvitund og var viðkomandi fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku einnig.

Í því fjórða var ekið á ljósastaur og var ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna ásamt því að miða ekki við ökuhraða við aðstæður.

Slökkviliðið minnir fólk á að fara varlega

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins segir síðasta sólarhring hafa verið ansi erilsaman. Mikill fjöldi Covid-19 flutninga hafi verið vegna aukinna smita í samfélaginu.

Fólk er minnt á að horfa ekki eingöngu á hitastigið þegar það metur hálku á vegum. Hálkan geti verið lúmsk og komið fólki að óvart.