Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra mun ekki gefa upp hvað var rætt á fundi með aðstoðarforsætisráðherra og utanríkisráðherra Namibíu, þann 7. júní. Í svari við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingkonu Viðreisnar, er vísað til upplýsingalaga.

Þau Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, Bryndís Helgadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu réttarfars og stjórnsýslu, Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu almanna- og réttaröryggis, og Hinrika Sandra Ingimundardóttir, staðgengill skrifstofustjóra skrifstofu almanna- og réttaröryggis, sátu fundinn fyrir hönd ráðuneytisins.

Tilefnið var beiðni namibísku sendinefndarinnar um fund, sem fram kom á fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrr sama dag. Bryndís spurði á hvaða forsendum Brynjar hefði ekki viljað tjá sig um ástæður eða efni fundarins. Bendir Jón á í svari sínu að gögnin í þessu máli varði samskipti við erlent ríki.

„Geti erlendir sendimenn ekki treyst því að trúnaður um samskiptin sé undantekningarlaust virtur, stefnir það nauðsynlegu trúnaðartrausti í hættu. Þar með gætu stjórnvöld ekki átt í árangursríkum samskiptum við erlend ríki til að sinna lögmætum hlutverkum sínum í þágu íslenska ríkisins með þeim afleiðingum að brýnir almannahagsmunir yrðu fyrir borð bornir.“