Forsætisnefnd reyndi ítrekað að fá afstöðu stjórnar Lindarhvols (stjórn Lindarhvols er raunar ein manneskja, Esther Finnbogadóttir, starfsmaður fjármálaráðuneytis Bjarna Benediktssonar) til þess hvort einhverjar upplýsingar í greinargerðinni ættu að fara leynt.

Esther sendi engin svör heldur mótmælti jafnan að greinargerðin yrði birt. Sinnti hún í engu óskum forsætisnefndar um upplýsingar um atriði í greinargerðinni sem skyldu fara leynt.

Að lokum gafst forsætisnefnd upp á að reyna að fá slíkar upplýsingar hjá Esther og fól Flóka Ásgeirssyni að leggja mat á hvort og þá að hvaða marki sé að finna viðkvæmar upplýsingar í greinargerðinni sem leynt skuli fara.

Í ágúst 2021 skilaði Flóki minnisblaði til forsætisnefndar þar sem fram kemur afgerandi niðurstaða um að engar viðkvæmar upplýsingar séu í greinargerðinni. „…er það niðurstaða undirritaðs að skylt sé samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis, að veita almenningi aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda án takmarkana“.

Á fundi forsætisnefndar 4. apríl 2022 var minnisblað Flóka lagt fram og formleg ákvörðun tekin, að tillögu Birgis Ármannssonar þingforseta, um að veita aðgang að greinargerðinni án takmarkana.

Lögfræðiálitið og minnisblöð Flóka urðu opinber eftir að úrskurðarnefnd upplýsingamála úrskurðaði um að þau skyldu birt, 8.mars 2023.

Í ljósi þess að allir í forsætisnefnd ítrekuðu vilja sinn til að birta greinargerðina á fundi forsætisnefndar, mánudaginn 6. mars, virðist ljóst að Birgir Ármannsson er einangraður í málinu í nefndinni.

Einnig hefur komið fram lögfræðiálit um að samkvæmt þingsköpum sé forsætisnefnd fjölskipuð, líkt og aðrar nefndir þingsins, sem þýðir að vilji meirihluta nefndarinnar ræður niðurstöðu mála en ekki forseti þingsins einn, eins og verið hefur túlkun Birgis Ármannssonar. Samkvæmt því hefur Birgir setið á greinargerðinni í trássi við þingsköp og skýrt lögfræðiálit Flóka Ásgeirssonar um að skylt sé að birta hana.

Ekkert nýtt hefur komið fram síðan formleg ákvörðun forsætisnefndar var tekin í apríl 2022 (og aflað var lögfræðilegra álitsgerða því til stuðnings) sem réttlætir að neita um afhendingu greinargerðar Sigurðar Þórðarsonar.