Lög­reglan á Norður­landi eystra hefur í ár kært 155 öku­menn fyrir að tala í síma undir stýri án hand­frjáls búnaðar. Virðist sem um vaxandi vanda­mál sé að ræða í um­ferðinni hér á landi að mati lög­reglu.

„Við erum að reyna með virku eftir­liti að fá fólk til að skammast til að nota hand­frjálsan búnað,“ segir Jóhannes Sig­fús­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn á Akur­eyri, um brotin. Jóhannes telur mála­fjöldann gefa til kynna að mikil ó­lög­leg sím­notkun eigi sér stað í akstri hér á landi.

Sekt við að tala ó­lög­lega í síma á akstri nemur 50.000 krónum. Það telst nokkuð há sekt að sögn Jóhannesar og kemur við pyngju f lestra brot­legra. Er eftir miklu að slægjast að hans sögn að bæta hegðun öku­manna. Helstur yrði þá á­vinningur í bættu um­ferðar­öryggi. Sím­notkun trufli ein­beitingu við akstur og skapi hættu.

„Okkur finnst þessar tölur benda til mikillar sím­notkunar í akstri,“ segir Jóhannes. Hinir brot­legu eru á öllum aldri að hans sögn og lang­flestir Ís­lendingar.

Þá hefur lög­reglan á Norður­landi eystra sektað 119 á árinu fyrir að aka án bíl­beltis.