„Ég vona enn að Ice­landair dragi uppsögnina til baka en ætli ég verði ekki svartsýnni og svartsýnni á farsæl málalok eftir því sem dagarnir líða.“

Þetta segir Ólöf Helga Adolfsdóttir hlaðkona en hún var trúnaðarmaður er henni var sagt upp. Efling, ASÍ og fjölmörg stéttarfélög telja uppsögn Icelandair kolólöglega og krefjast þess að Ólöf fái starf sitt á ný. Icelandair segir vafa leika á trúnaðarmennskunni, en það segir Ólöf fáránlegt.

Hún segist ótrúlega þakklát fyrir stuðninginn, en Icelandair hafi ekkert samband haft við hana eftir að umfjöllun um hana varð opinber með því að Fréttablaðið sagði fyrst frá málinu. Lögmaður hennar undirbýr málsókn fyrir Félagsdómi.