„Það sem ég sá var mjög ráðvillt og brotin fjölskylda. Það var vonleysi og þreyta í loftinu því þetta eru ofboðslega erfiðar aðstæður. Annar drengurinn er með vöðvarýrnunarsjúkdóm sem bindur hann við hjólastól og þarf aðhlynningu sem hann fær ekki í Grikklandi. Íslenska ríkið gat ekki sýnt kærleika með því að bjóða honum og fjölskyldunni áframhaldandi dvöl,“ segir Ólöf Salmon Guðmundsdóttir, meðstjórnandi Amnesty á Íslandi sem hitti íröksku fjölskylduna sem var flutt nauðug frá Íslandi til Aþenu á dögunum.

Eins og fjallað hefur verið um síðustu daga var fimm manna fjölskylda meðal þeirra sem var vísað úr landi með valdi þann 2. nóvember síðastliðinn.

Lögreglan handtók tvær ungar konur á leiðinni úr skólanum en þær stunda nám við Fjölbrautarskólann við Ármúla. Þá var bróðir þeirra hnepptur í hald sem notast við hjólastól vegna vöðvasjúkdóms.

„Þarna er 47 ára móðir með börnin sín fjögur, faðir þeirra var myrtur í Írak árið 2017 og síðan þá eru þau búin að vera á hrakhólum. Þetta er svo ofboðslega erfiðar aðstæður. Þau eru alltaf að lenda í nýjum erfiðum áskorunum,“ segir Ólöf og segir að við komuna til Grikklands hafi fjölskyldan í raun ekkert fengið og vísað út á götu.

Ólöf segir að þótt að hún geri sér grein fyrir því að Ísland geti ekki tekið við endalausum straumi flóttamanna sé í tilfelli íröksku fjölskyldunnar mannúðarsjónarmið að huga að fjölskyldunni.

„Við komuna tók gríska lögreglan við fólkinu og sagði þeim í raun að fara út á götu. Þau fá í raun ekki neitt, ekki lyfin sem þau þurfa hingað. Þau virðast einfaldlega vera fyrir þarna úti og eru á vergangi. Þau fengu pappíra til að fara úr landi þegar þau vilja, það gefur þeim samt ekki neitt.“

Með velvild í huga tókst kennara við FÁ sem kenndi stúlkunum að útvega fjölskyldunni húsnæði til eins mánaðar en Ólöf segir að það sé ekki framtíðarúrræði.

„Þau eru komin með húsnæði sem er ekki fyrir tilstilli íslenska né gríska ríkisins. Þetta var gert af hálfu kennara í Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Henni þótti svo vænt um stúlkurnar og tókst í gegnum eigin sambönd að útvega húsnæði í skamman tíma og greiddi fyrir það. Það er tímabundið úrræði og tókst henni kom í veg fyrir að þau þyrftu að sofa á götunni í bili,“ segir Ólöf og minnist á að það sé erfitt fyrir þau að finna atvinnu í Grikklandi.

„Þau eiga í raun engan pening og það yrði erfitt að finna vinnu í Grikklandi þótt að þau fengu atvinnuleyfi vegna atvinnuleysis og efnahagsástandsins í Grikklandi.“

Ólöf segir að þau séu enn vongóð um að komast aftur til Íslands.

„Þau vilja bara komast aftur til Íslands. Þau eiga vini hérna sem þykir vænt um þau.“