Ólöf Helga Adolfs­dóttir, nú­verandi vara­for­maður Eflingar og hlað­kona, býður sig fram til em­bættis formanns Eflingar til næstu tveggja ára auk þess sem hún gefur kost á sér til setu í stjórn Eflingar á þeim lista sem upp­stillingar­nefnd sam­takanna setur saman.

Ólöf Helga til­kynnti um fram­boð sitt í dag á Face­book og segir þar að hún þekki það af eigin raun að leita skjóls hjá stéttar­fé­lagi sínu sem hafi staðið upp henni til varnar en Ólöfu Helgu var sagt upp hjá Icelandair eftir fimm ára starf og hefur sagt að hún telji það tengjast störfum hennar sem trúnaðar­manns Eflingar á vinnu­staðnum.

„Ég þekki því af eigin raun hversu mikil­væg öflug og skipu­lögð verka­lýðs­hreyfingin er launa­fólki and­spænis ægi­valdi fyrir­tækja og sam­taka at­vinnu­rek­enda,“ segir Ólöf Helga í til­kynningu sinni þar sem hún segist vilja leiða sam­tökin í gegnum kjara­samnings­við­ræður sem munu fara fram síðar á þessu ári.

„Ég vil leggja mitt af mörkum til að styrkja stöðu trúnaðar­manna og efla þá í starfi. Ég vil halda á­fram því öfluga starfi sem Efling hefur unnið að síðustu ár og lýtur m.a. að þjónustu við er­lenda fé­lags­menn og þátt­töku þeirra í starfi hreyfingarinnar. Ég vil takast á við vanda ungs fólks á vinnu­markaði og þeirra sem eru utan náms og vinnu af fullum þunga. Síðast en ekki síst vil ég vinna að því á­samt stjórn og skrif­stofu að efla þjónustu við fé­lags­menn enn frekar, byggja upp fræðslu­starf, auka lýð­ræði innan fé­lagsins og tryggja að­gengi fé­laga að upp­lýsingum um starf­semi Eflingar,“ segir hún en til­kynninguna má lesa hér að neðan.