Ólöf Helga Adólfs­dóttir, ritari stjórnar Eflingar, hefur til­kynnt að hún ætli að bjóða sig fram til for­seta ASÍ. Hún mun berjast við Ragnar Þór Ingólfs­son um em­bættið, en hann var einn í fram­boði um for­seta­stólinn.

„Al­þýðu­sam­band Ís­lands er eitt það dýr­mætasta sem launa­fólk á Ís­landi á. Að setja það bar­áttu­laust í hendur fólks sem lætur eigin valda­hags­muni ganga fyrir hags­munum al­menns fé­lags­fólks væri á­mælis­vert. Ég hef því tekið þá á­kvörðun að bjóða mig fram til for­seta ASÍ á þingi sam­bandsins sem hefst nú á mánu­dag,“ segir Ólöf.

„Ég hef kynnst af eigin raun hversu mikil­vægt það er fyrir vinnandi fólk að eiga skjól í sínu stéttar­fé­lagi. En ég hef líka séð hveru illa það fer með fólk að eiga ekki slíkt skjól. Fyrir rúmu ári síðan var mér sagt upp störfum sem hlað­maður á Reykja­víkur­flug­velli af þeirri á­stæðu einni að ég vildi sinna starfi mínu sem trúnaðar­maður á vinnu­staðnum. Stéttar­fé­lag mitt, Efling, tók málið föstum tökum og höfðaði mál fyrir Fé­lags­dómi. Sam­hliða var ráðist í fjöl­miðla­her­ferð og ég – sem hafði aldrei birst í fjöl­miðlum nema sem barn að halda tom­bólu – var til við­tals í öllum helstu miðlum landsins. For­maður og fram­kvæmda­stjóri Eflingar, Sól­veig Anna Jóns­dóttir og Viðar Þor­steins­son, stilltu sér upp mér við hlið. Fram­leidd voru mynd­bönd, skrifaðar fréttir og greinar og fólk kallað saman til mót­mæla,“ segir Ólöf.

„Þegar aðal­með­ferð fór fram í máli mínu fyrir Fé­lags­dómi nú ný­verið fylgdi lög­maður fé­lagsins málinu eftir. En nú brá svo við að for­maðurinn kom hvergi nærri og þagði þunnu hljóði. Engin frétt var birt á síðu Eflingar, hvað þá mynd­efni og ekki var kallað til mót­mæla eða sett fram á­kall um sam­stöðu. Á­stæða þessara sinna­skipta var ein­fald­lega sú að ég hafði hreyft öðrum skoðunum á starfi og fram­tíð Eflingar en Sól­veig Anna Jóns­dóttir. Ég gat því ekki annað en dregið þann lær­dóm að opin­ber stuðningur fé­lagsins míns væri háður því að það þjónaði pólitískum hags­munum formannsins. Þetta var ekki að­eins sárt og ó­þægi­legt fyrir mig, heldur ógnar svona fram­koma réttindum og hags­munum allra þeirra tug­þúsunda ein­stak­linga sem eru fé­lagar í Eflingu,“ segir Ólöf.

Vilhjálmur Birgisson, Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir.
Fréttablaðið/ERNIR

Hún segir að það sé ó­ljóst hvað þrí­eykið sem ætli að taka við stjórnar­taumunum í ASÍ vilji með sam­bandið, en hún telur að þau hafi misst trú­verðug­leika verka­lýðs­hreyfingunnar með hóp­upp­sögnum á skrif­stofu Eflingar.

„Nú vill Sól­veig Anna, í valda­banda­lagi við Ragnar Þór Ingólfs­son og Vil­hjálm Birgis­son, taka yfir Al­þýðu­sam­band Ís­lands. Í gegnum hóp­upp­sagnir á skrif­stofu Eflingar fórnuðu þau trú­verðug­leika verka­lýðs­hreyfingarinnar og fé­lags­fólki fyrir eigin valda­hags­muni. Ó­ljóst er hvað þrí­eykið vill með sam­bandið. En það hefur komið skýrt fram að þau munu ekki hafa rúm fyrir aðrar skoðanir en sínar eigin og vilja stjórna í krafti meiri­hlutaræðis. Allir sem mót­mæla þeim fá yfir sig fúk­yrða­flaum – og þegar önnur sjónar­mið eru sett fram er þeim mætt með hótunum og of­forsi,“ segir Ólöf.

Sjálf hefur Ólöf verið virk í verka­lýðs­bar­áttunni síðast­liðin ár og setið í stjórn Eflingar frá árinu 2019.

„Ég hef unnið lág­launa­störf alla mína starfs­ævi, að frá­töldum þeim mánuðum sem ég gegndi em­bætti vara­for­manns Eflingar. Sem for­seti ASÍ hef ég á­huga á að að leiða fólk saman og starfa með öllum aðildar­fé­lögum innan hreyfingarinnar. Ég vil leggja mitt af mörkum til að hreyfingin þjóni á­fram öllu sínu fé­lags­fólki, óháð pólitískum skoðunum þess. Ég trúi að lýð­ræðið snúast ekki að­eins um at­kvæða­greiðslu eða hausatalningu, heldur ferli og um­ræðu þar sem öll sjónar­mið skipta máli. Ég trúi á ASÍ sem breið­fylkingu,“ segir Ólöf.