Isavia hefur sagt upp öllum starfs­mönnum sínum á Vest­manna­eyja­flug­velli. Þetta kemur fram á Eyjar.net en til­kynnt var um upp­sagnirnar í morgun.

Ingi­bergur Einars­son, rekstrar­stjóri flug­vallarins í Vest­manna­eyjum, stað­festir þetta í sam­tali við Eyjar.net. Upp­sagnirnar má rekja til þess að flug­fé­lagið Ernir hætti á­ætlunar­flugi sínu milli lands og Eyja í byrjun mánaðar.

Þrír starfs­menn Isavia störfuðu á flug­vellinum og eru þeir ýmist með þrjá og upp í sex mánaða upp­sagnar­frest. Sam­kvæmt Eyjar.net stendur til að ræða við starfs­mennina um að ráða þá aftur og þá í skertu starfs­hlut­falli.

Á vef Eyjar.net er tekið fram að það sé afar slæmt að þjónustua flugvallarins skerðist um þessar mundir þar sem samfélagið í Vestmannayejum á allt sitt undir er kemur að flutningum sjúklinga til höfuðborgarinnar. Þyngstu mánuðirnir í sjúkrafluginu milli lands og Eyja eru október - nóvember og mars - apríl.