Yfir­völd í Delí, höfuð­borg Ind­lands, hafa lokað öllum skólum og há­skólum um ó­á­kveðinn tíma vegna sí­versnandi svif­ryksmengunar. Byggingar­fram­kvæmdir hafa líka verið bannaðar þar til 21. nóvember en undan­tekning hefur verið gerð fyrir sam­göngu- og varnar­mála­fram­kvæmdir.

Að­eins fimm af 11 kola­orku­verkum í borginni hefur verið leyft að halda á­fram störfum.

Eitraður mökkur af svif­ryki hefur um­lukið Delí frá upp­hafi Diwali-há­tíðarinnar.

Styrkur svo­kallaðs PM2.5 svif­ryks í Delí eru nú langtum yfir þeim heilsu­verndar­mörkum sem Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin mælir með. Heilsu­verndar­mörk eru upp að 50 mí­krógrömm á rúm­metra en sums staðar í Delí mælist styrkur svif­ryks nú yfir 400, sem er flokkað sem mjög al­var­legt.

Sumir skólar í borginni höfðu þegar lokað í síðustu viku vegna mengunar og yfir­völd í Delí hafa sagst vera að í­huga út­göngu­bann til að reyna að stemma stigu við reykjar­mökknum sem liggur yfir borginni.

Íbúar hafa verið hvattir til að halda sig heima og sleppa því að nota bíla sína.
Fréttablaðið/Getty

Mengaðasta höfuðborg heims

Blanda af þáttum á borð við út­blástur frá stór­iðnaði, ryk­mengun og slæmum veður­skil­yrðum, gera Delí að menguðustu höfuð­borg heimsins. Loft­skil­yrði verða sér­stak­lega slæm yfir vetrar­mánuðina þegar bændur í ná­granna­héruðum brenna upp­skeru sína. Þá gera miklir flug­eldar yfir Diwali-há­tíðina illt verra. Kyrr­viðri spilar einnig þátt í versnandi mengun með því að festa mengunina á jörðu niðri.

Mengunin í ár er orðin svo slæm að hæsti­réttur Ind­lands gaf út stranga við­vörun til héraðs- og ríkis­yfir­valda um að grípa til tafar­lausra neyðar­að­gerða til að tækla vanda­málið.

Meðal þeirra öryggis­ráð­stafana sem gripið hefur verið til er bann á vöru­bílum innan Delí og ná­granna­ríkjanna Uttar Pra­desh, Pun­jab, Hary­ana and Rajast­han til 21 nóvember, að undan­skildum þeim sem flytja nauð­synja­vörur.

Þá hefur einnig verið mælt því að einka­fyrir­tæki innan Delí veiti helming starfs­manna sinna leyfi til að vinna að heiman til að tak­marka mengun frá bíla­um­ferð.

Loft­mengun er ekki vanda­mál sem tak­markast við Delí en ind­verskar borgir eru iðu­lega efst á lista yfir staði í heiminum með verstu loft­gæðin. Þá látast meira milljón manns ár­lega á Ind­landi vegna á­hrifa loft­mengunar.