„Við erum rosalega stolt af henni,“ segir Sunna Björg Skarphéðinsdóttir, eigandi tíkurinnar Ollie sem var um helgina heiðruð af Hundaræktunarfélagi Íslands og hlaut nafnbótina afrekshundur ársins 2022.

Ollie hefur frá því í fyrra unnið hjá athvarfinu Læk í Staðarbergi í Hafnarfirði. Lækur er athvarf fyrir fólk með geðrænan vanda og er markmiðið að draga úr félagslegri einangrun. Þar er Ollie fullkominn starfskraftur.

„Hún er svo mikill gleðigjafi, hún er næm á fólk, ofboðslega góð og yndisleg,“ segir Sunna. Hún segir aðspurð Ollie vera gleðigjafa að eðlisfari en hún er af tegundinni Coton de Tulear.

„Ég myndi segja að þetta hafi bara verið meðfætt hjá henni. Við prófuðum okkur áfram á Læk og það kom aldrei neitt upp. Hún er rosalega fædd í þetta, enda var amma hennar stuðningshundur hjá Rauða krossinum, þannig þetta er hreinlega bara í genunum.“

Alger dúlla hún Ollie.
Fréttablaðið/Aðsend

Sunna segir Ollie eiga erfitt með að vera eina og því henti dagdvölin á Læk henni afar vel. Ollie þarf enda að sinna og hún elskar að knúsa og kjassa fólk og sjá gestir um að fara með henni út að labba þegar hún óskar eftir því eða oftar.

„Ollie finnst vont að vera ein og mér þótti vont að skilja hana eftir. Þannig að við prófuðum þetta og það gengur bara svo rosalega vel,“ segir Sunna. Afar vel sé hugsað um Ollie á Læk.

„Ollie er svo heppin að fá að vera þarna. Það er svo gott fólk þarna og hún er rosalega glöð þegar við mætum á morgnana, hún hleypur alveg inn. Við í raun bara skutlum og sækjum á hverjum degi,“ segir Sunna hlæjandi en Ollie dvelur á Læk hvern einasta virka dag.

Hin fjögurra ára Ollie fékk verðlaunin frá Hundaræktunarfélaginu síðastliðinn laugardag. Sunna segir Ollie hafa verið kátari að hitta ræktandann sinn en með verðlaunin.

„Hún kannski fattaði þetta ekki alveg,“ segir Sunna. „En þarna hitti hún í fyrsta sinn í nokkur ár konuna sem ræktaði hana og það urðu þvílíkir fagnaðarfundir, Ollie hafði engu gleymt.“