Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nægu að snúast í gærkvöldi og nótt. Tilkynnt var um hótelgest í miðborginni sem hafði valdið talsverðum skemmdum á herbergi, auk þess sem viðkomandi hafði haft í hótunum við starfsfólk. Samkvæmt dagbók lögreglu er málið nú í rannsókn.
Þá var kona vistuð í fangageymslu eftir umferðaróhapp, grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna, og þrír ökumenn handteknir vegna gruns um ölvun við akstur.
Lögreglan var kölluð til í Hafnarfirði í gærkvöldi vegna ágreinings milli fólks. Þegar lögreglu bar að garði reyndist ekki þörf á inngripi af hálfu lögreglu.
Þá var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í Hafnarfirði en að sögn íbúa gengu menn um hverfið og sögðust vera að taka myndir af húsum. Þegar lögreglu bar að garði voru mennirnir á bak og burt.
Tilkynnt var um menn á torfæruhjólum utan vega í Hafnarfirði, en samkvæmt lögreglu fundust mennirnir ekki.
Þá var maður handtekinn eftir uppákomu við öldurhús, sá reyndist ekki viðræðuhæfur sökum ölvunar. Sá gistir nú fangageymslu lögreglu vegna brota á vopnalögum.