Öll sem koma utan svæðis til að aðstoða á Seyðisfirði þurfa að fara í skimun. Mikill fjöldi aurskriða féll í síðustu viku á Seyðisfirði með hrikalegum afleiðingum. Hús hafa eyðilagst og bæjarbúar hafa þurft að yfirgefa heimili sín og neyðarstigi lýst yfir.

Almannavarnir hafa lýst áhyggjum af fjölgandi smitun um helgina en alls greindust þrettán í fyrradag og daginn áður, samtals 26. Af þeim voru tíu utan sótt­kvíar. Kristján Ólafur Guðna­son, yfir­lög­reglu­þjónn á Austur­landi, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að viðbragðsaðilar á fjölmiðlafólk á svæðinu færu í sýnatöku en enga sóttkví. Það væri öryggisráðstöfun.

Aðgerðarstjórn leggur sérstaka áherslu á mikilvægi sóttvarna á svæðinu og ekki síst í kringum þá umferð og vinnu sem er á Seyðisfirði og á Egilsstöðum.

Aðgerðarstjórn hvetur til grímunotkunar í matsal, í hópavinnu, í björgunarmiðstöð sem og fjöldahjálparstöðinni. Fólk á svæðinu gæti að fjarlægðarmörkum, handþvotti og sprittnotkun.

„Við munum áreiðanlega gleyma þessu á einhverjum tímum en alltaf skulum við hafa þetta í huga og gera einfaldlega betur næst,“ segir í tilkynningunni sem má sjá hér fyrir neðan. Aðgerðastjórn ítrekar mikilvægi sóttvarna til þess að aðventan og hátíðarnar megi fara smitlausar fram og ekki síður að björgunar- og uppbyggingastarf á Seyðisfirði haldi áfram ótruflað.