Fái laga­frum­varp Lilju Al­freðs­dóttur, mennta- og menningar­mála­ráð­herra, um Mennta­sjóð nám­sa­manna fram­gang á Al­þingi munu vextir og greiðslu­byrði allra nú­verandi náms­lána lækka. Frum­varpið felur í sér grund­vallar­breytingu á náms­lána­kerfinu

Þá munu ráð­stöfunar­tekjur greið­enda hækka og á­byrgðir á 30 þúsund náms­lánum verða felldar niður. Þetta kemur fram í til­kynningu Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytisins.

Létta á­hyggjur láns­greið­enda

„Með þessu er tryggt að lán­þegar njóti góðs af sterkri stöðu LÍN, sem hefur á undan­förnum árum aukið veru­lega eigið fé sitt vegna góðra endur­heimta og minnkandi spurnar eftir náms­lánum. Það er sér­stak­lega á­nægju­legt að geta líka létt á­hyggjum af tugum þúsunda ein­stak­linga sem hafa verið í á­byrgð fyrir endur­greiðslu lána, því slík á­byrgð felur í sér mikla skuld­bindingu eins og mörg dæmi sanna,“ segir Lilja.

„Nú hefur ríkis­stjórnin á­kveðið að gera sam­hliða breytingar á eldri náms­lánum, sem allar miða að því að bæta kjör lán­þega. Búið er að leggja fyrir þingið breytingar­til­lögu á fyrir­liggjandi frum­varpi.“

Lilja Al­freðs­dóttir, mennta- og menningar­mála­ráð­herra, vill gjörbreyta námslánakerfinu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Breytingar nýtast öllum láns­þegum

Breytingarnar eru liður í að­gerðum stjórn­valda til að liðka fyrir kjara­við­ræðum á opin­berum vinnu­markaði og koma til móts við á­herslur Banda­lags há­skóla­manna. Breytingarnar munu þó nýtast öllum lán­þegum, bæði þeim sem starfa hjá hinu opin­bera og á al­mennum markaði.


Vextir náms­lána verði lækkaðir úr 1% í 0,4% auk þess sem allt að 15% af­sláttur verður veittur af höfuð­stól við upp­greiðslu náms­lána og inn­á­greiðsla. Þá verða á­byrgðir felldar niður á öllum lánum sem eru í skilum, en þau eru um 30 þúsund talsins.