Landhelgisgæslan segir að viðhald á þyrlunni TF-GRO hefur gengið mun hægar en vonir voru bundnar við vegna þess að ekki hafa allir flugvirkjar, sem Landhelgisgæslan telur að eigi að vera við vinnu, mætt til að sinna því. Ljóst er að ekki mun takast að ljúka skoðuninni á tveimur dögum.

„Öll loftför Gæslunnar eru óflughæf,“ segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi í samtali við Fréttablaðið. Þá fer eftir mönnun hvort þyrlan verði tilbúin fyrir sunnudag. Hún verður alla vega ekki til taks, hvorki í dag né á morgun. Búið er að kalla eftir flugvirkjum í dag til að sinna skoðun.

Samninga­fundi flug­virkja og samninga­nefndar ríkisins lauk klukkan 19 í gærkvöldi án þess að samningar tækjust. Fundurinn stóð yfir í tíu tíma en annar fundur hefur ekki verið boðaður í deilunni.

Verkfall hefur staðið yfir frá 5. nóvember og nær til sex af átján flugvirkjun Gæslunnar sem starfa í flugskýli og viðhaldsskipulagningu. Nýta átti þá flugvirkja sem ekki eru í verkfalli til sinna viðhaldinu og fengu þeir hvatningarbréf síðasta miðvikudag um að mæta og sinna skoðuninni. Ljóst er að hluti þeirra hafa ekki mætt.

„Grafalvarleg staða“

Landhelgisgæslan hefur fjórum sinnum óskað eftir undanþágu frá verkfallinu en þeim beiðnum hefur verið hafnað af Flugvirkjafélaginu.Var vonast til að samningafundur gærdagsins myndi bera árangur. „

Mikið liggur við að koma TF-GRO í flughæft ástand sem allra fyrst og vinna niður uppsafnað viðhald á öðrum loftförum sem gegna veigamiklu hlutverki við leit og björgun á Íslandi,“ segir í tilkynningu frá Gæslunni sem ítreka nauðsynina á því að tryggja neyðarbjörgunarþjónustu. Staðan sé grafalveg.