„Trans einstaklingar eiga að fá að iðka og keppa í sinni íþróttagrein,“ segir í yfirlýsingu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur en þar er tekin skýr afstaða með trans fólki í íþróttum. Þar segir enn fremur að öll íþróttafélög innan sambandsins fái á haustmánuðum hinseginfræðslu.

Í yfirlýsingunni segir að sama sé hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna, afreks- eða áhugafólk. Allir eigi að fá að iðka og keppa í sinni íþróttagrein á jafnréttisgrundvelli og það sé undir íþróttahreyfingunni komið að vera inngildandi og finna leiðir fyrir öll að taka þátt og keppa.

„Trans íþróttafólk er hluti af íþróttasamfélaginu. Öll eiga rétt á því að njóta íþrótta án tillits til kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna,“ segir í yfirlýsingu ÍBR og að þau vinni markvisst að því að gera íþróttastarfsemina í Reykjavík hinseginvænni og að á haustmánuðum muni öll íþróttafélög innan raða ÍBR fá hinseginfræðslu frá Samtökunum '78, fyrir starfsfólk og þjálfara.

„ÍBR lýsir sig reiðubúið að vinna að því með sérsamböndum, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og Ungmennafélagi Íslands að útbúa leiðbeiningar fyrir íþróttahreyfinguna um trans fólk í íþróttum sem verndar rétt allra til að stunda íþróttir,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.