Maðurinn sem lést í manndrápsmálinu í Ólafsfirði aðfaranótt mánudags hafði fengið þó nokkra dóma sem vörðuðu til að mynda líkamsárásir, fíkniefna-, þjófnaðar- og umferðarlagabrot. Í dómi Hæstaréttar frá árinu 2004 segir að frá árinu 1997 hafi hann hlotið 11 refsidóma fyrir ýmis brot.

Þrjú hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna andlátsins, og eru því með réttarstöðu sakbornings. Einum hefur þó verið sleppt úr haldi. Öll þrjú hafa þau áður hlotið dóma fyrir ýmis brot.

Stór skurður eftir stóran eldhúshníf

Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar fékk sá látni tveggja ára fangelsisdóm fyrir að hafa, árið 2003, ráðist á einstakling með 34 cm löngum hníf. Brotaþolinn hlaut áverka á hendi, en í lögregluskýrslu er því lýst að hann hafi verið „skorinn talsvert djúpum skurði ofarlega á þumalfingri vinstri handar“.

Atvikið átti sér stað í íbúð í Ólafsfirði, en brotaþolinn sagðist hafa verið á dansleik í menningarhúsinu Tjarnarborg, og síðan farið í partí annars staðar í bænum. Þegar hann hafi komið heim til sín hafi honum verið boðið í partí heim til mannsins.

Því er lýst að maðurinn hafi verið í vondu skapi í partíinu heima hjá sér, til að mynda vegna tölvu sem var biluð og sígarettupakka sem hann sagði að hafði verið stolið. Hann hafi sagt fólkinu í íbúðinni að yfirgefa hana og svo virðist sem einhverjir hafi ekki farið eftir þeim fyrirmælum.

Maðurinn á síðan að hafa tekið stóran hníf upp úr eldhússkúffu, komið með hann á lofti í anddyri, og slegið í hendi brotaþolans, sem vildi meina að hnífurinn hefði auðveldlega getað endað í brjósti eða andliti sínu.

Hann neitaði sök í málinu og sagðist muna óljóst eftir atburðum næturinnar. Hann sagðist hins vegar hafa vaknað um klukkan sex síðdegis daginn eftir og séð hnífinn á gólfinu í anddyrinu. Að kvöldi sama dags hafi hann síðan afhent lögreglu hnífinn.

Stal fjórum haglabyssum

Með þessu hafði maðurinn rofið skilorð, og var það haft til hliðsjónar við ákvörðun refsingar, sem var líkt og áður segir tvö ár. Hann hafði þá hlotið 11 refsidóma þar af þrjá fyrir líkamsárásir.

Svo virðist sem aðeins einn þessara ellefu dóma sé í opinberi birtingu á vefsíðum dómstólana. Þar fékk maðurinn tólf mánaða fangelsisdóm, árið 2001, í Hæstarétti, fyrir nytjastuld, þjófnað, og fíkniefnalagabrot. Hann framdi þessi brot í félagi við annan mann.

Þjófnaðurinn varðaði til að mynda fjórar haglabyssur, skiptilykil, rafmagnsborvél, felgujárn, Kodak-myndavél og 30 þúsund krónum í peningum, sem og öðrum munum.

Með hnúajárn og stinningarlyf í farteskinu

Karlmaður sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald vegna manndrápsins í Ólafsfirði hlaut fyrir tveimur árum í Héraðsdómi Reykjaness eins árs fangelsisdóm fyrir hin ýmsu brot. Hann var ákærður fyrir að fremja líkamsárásir, fíkniefna-, vopnalaga-, lögreglulaga-, og tollalagabrot.

Ákæruvaldið féll hins vegar frá ákæruliðunum er vörðuðu líkamsárásir, sem áttu að hafa átt sér stað árin 2015 og 2018. Í þeirri seinni var honum gefið að sök að ráðast á mann með hamri.

Þá fékk hann dóm fyrir að flytja ólöglega til landsins hnúajárn og 9 stykki af lyfseðilsskyldum töflum af gerðinni Kamagra, en það er stinningarlyf. Tollverðir fundu þessa hluti er hann kom frá Kaupmannahöfn til landsins.

Auk þess varðaði dómur mannsins atvik sem átti sér stað árið 2018, þegar hann var handtekinn grunaður um ölvunarakstur. Hann var staðsettur í lögreglubíl, en tókst að skrúfa niður. bílrúðuna, teygja höndinni út, opna hurðina utan frá og hlaupa af vettvangi.

Þá kom fram í dómnum að maðurinn hafi áður hlotið dóma. Árið 2011 fékk hann til að mynda dóm fyrir líkamsárás, og þá hefur hann jafnframt verið dæmdur fyrir önnur fíkniefnalagabrot, umferðarlagabrot, þjófnað og nytjastuld.

Stálu peningaskáp úr íbúð í Hafnarfirði

Konurnar tvær sem voru handteknar vegna andlátsins í Ólafsfirði hafa jafnframt báðar hlotið dóm. Þeir dómar varða fyrst og fremst fíkniefnalagabrot, sem varða bæði vörslu og innflutning, umferðarlagabrot, og þjófnað.

Önnur konan hlaut árið 2011 sextíu daga fangelsisdóm fyrir innbrot og þjófnaðarlagabrot, sem framin voru í félagi við annan mann.

Þau höfðu, þetta sama ár, brotist inn í íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði með með því að spenna upp glugga. Þar stálu þau rakvél, sléttujárni, krullujárni, þremur flökkurum, i-pod, i-pod-vöggu, fartölvu, fartölvutösku, leikjatölvu, vasareikni, myndavél og fylgihlutum við hana, peningaskáp, bolta í riffil, þrengingu í haglabyssu, bakpokum, símhleðslutæki, snyrtidóti og skartgripum.

Auk þess varðaði dómurinn innbrot í tvo bíla í Hafnarfirði, þar sem þau stálu ýmsum munum.