Frambjóðendurnir fimm sem misstu jöfnunarsæti sín á Alþingi vegna endurtalningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi hafa nú kært kosningarnar. Fjórir þeirra hafa kært til Alþingis og einn, Karl Gauti Hjaltason, kærði endurtalninguna til lögreglu. En hann kveðst einnig ætla að kæra til þingsins.

Kærurnar eru þá alls sjö en auk þingmanssefnanna fimm hafa tveir borgarar kært kosningarnar að því er fram kemur á vef RÚV.

Þriðji fundur undirbúningkjörbréfanefndar fór fram í morgun þar sem farið var yfir ágreiningsatkvæði og ýmis gögn.

Haft er eftir Birgi Ármannsyni formanni nefndarinnar engin leið sé að segja til um hvort endurtaka þurfi kosningar í Norðvesturkjördæmi. Þá sé óljóst hvenær vinnu nefndarinnar ljúki, þetta geti tekið nokkrar vikur.

Kærufrestur til kjörbréfanefndar rennur úr 29. október næstkomandi og því mögulegt að fleiri kærur komi til með að berast.